144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé engin ástæða til þess að horfa öðruvísi en svo á að aðrir skólar á höfuðborgarsvæðinu, sem starfa á mið- og framhaldsstigi í söng og framhaldsstigi í hljóðfærakennslu, geti haldið áfram að starfa. Með öðrum orðum, nemandi getur verið afburðagóður nemandi og viljað vera í öðrum skóla en þessum, ef hann verður að veruleika. Það væri ein leið en þá kemur að spurningunni með fjármögnunarmódelin, t.d. ef nemandinn stundar á sama tíma nám í öðrum framhaldsskóla og er að taka einingar þá held ég að það sé alveg eðlilegt að ríkið komi þar að. Þar fyrir utan er líka alveg hægt að hugsa það þannig að ríkið styðji almennt við sveitarfélögin sérstaklega. Það yrði þá einhver afmörkuð fjárhæð sem væri búið að ákveða nákvæmlega hvernig ætti að deila út.

Það verður mjög spennandi að sjá hvað við fáum út úr vinnu þeirrar nefndar sem við erum að reyna að leggja grunn að og ræða það síðan í þinginu. Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að það (Forseti hringir.) verði næsta haust. Ég hef einsett mér það. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að fara að (Forseti hringir.) koma þessum málum á hreint.