144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má ekki gleyma því í þessu máli að verkefnið, tónlistarkennsla á framhaldsstigi og söngkennsla á mið- og framhaldsstigi, er hjá sveitarfélögunum. Þetta er verkefni sveitarfélaganna, ekki ríkisins. (Gripið fram í.) Það er svolítið eins og umræðan fari af stað eins og þetta sé verkefni ríkisins. Aðkoma ríkisins markast af því samkomulagi sem var gert 2011 um aukin fjárframlög. Þess vegna getur það ekki verið þannig að ef sveitarfélögin vantar meiri fjármuni til að reka tónlistarskólana geti menn bara sagt við ríkið: Þið eigið að fara með þetta í gegnum fjáraukann! vegna þess að þetta er hjá þeim. Það eru sveitarfélögin sem þurfa að finna fjármuni hjá sér (BjG: Samkomulagið …)— Já, samkomulagið kveður á um ákveðna fjárupphæð sem kemur frá ríkinu. — Það er ekki þannig og um það erum við sammála, ég og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi hæstv. ráðherra, að ríkið hafi tekið að sér að fjármagna eða reka framhaldsstigið í tónlistinni. (BjG: Nei, nei.) Þetta eru viðbótarfjármunir sem er verið að setja þarna inn. Ef vantar meiri fjármuni er eðlilegt að þeir komi frá sveitarfélögunum sem eru með verkefnið hjá sér. Það eru þau sem semja við tónlistarskólakennarana, það eru þau sem semja um kaup og kjör, það eru þau sem ákveða fjölda skólanna, (Forseti hringir.) inntöku nemendanna og alla þessa þætti og bera alla rekstrarábyrgðina. Um það er greinilega (Forseti hringir.) samkomulag. Þess vegna leggja þau þetta til. Það má ekki rugla því saman við það að ríkið beri ábyrgð á þessum rekstri. Það gerir það ekki.