144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef þrjár spurningar til hæstv. ráðherra. Fyrst vil ég þakka honum fyrir að koma hingað til umræðunnar og sömuleiðis hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins sem bersýnilega hefur aga á sínum mönnum.

Hæstv. ráðherra sagði að hann gerði sér vonir um að leggja fram frumvarpið, sem hann hefur verið að lýsa hér nokkuð ítarlega, næsta haust. Hann er nú með seinni skipunum ef hann ætlar að gera það. Ef það frumvarp er ekki tilbúið núna þá kemst það ekki í vinnslu fjárlagaskrifstofu ríkisstjórnarinnar fyrir sumarhlé, og það er eiginlega borin von að hann geti komið með það í haust. En guð láti gott á vita.

Hæstv. ráðherra sagði líka að það væri að öllum líkindum nauðsynlegt að fara í viðræður um breytta tekju- og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Spurning mín er þessi: Getur hann lagt frumvarpið fram eða hyggst hann leggja frumvarpið fram þó að ekki sé komin niðurstaða í þær viðræður?

Hæstv. ráðherra fór vel yfir það hvernig hann hygðist haga tónlistarnáminu með þeim hætti að það yrði skóli í Reykjavík fyrir afburðanemendur þar sem menn þyrftu að uppfylla ákveðin skilyrði. Kennslan á landsbyggðinni mundi hins vegar vera óbreytt að því mér skildist og afburðanemendur þar sem uppfylltu skilyrðin gætu verið í námslegum tengslum við hinn nýja skóla í Reykjavík. Spurning númer tvö er þá þessi: Mun þetta leiða til einhvers konar lækkunar á framlögum til skólanna á landsbyggðinni?

Hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir ágreiningi milli ríkis og Reykjavíkurborgar. Hann ætlar að reisa þennan nýja skóla hér. Spurning númer þrjú er þá þessi: Þýðir það að engin framlög verða frá ríkinu til annarra tónlistarskóla í Reykjavík?