144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það hárrétt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra, þetta er ekki að öllu leyti einfalt. Þetta er annars vegar gamalt verkaskiptamál og svo hins vegar hvernig það þróaðist, sveitarfélög voru almennt með miklu rýmri skilgreiningar á því hvaða kjörum íbúar sem koma úr öðrum sveitarfélögum skyldu sæta. Það þekki ég mjög vel eftir að hafa búið mjög lengi hér að uppistöðu til en haft lögheimili annars staðar. Ég hef fylgst með þessum breytingum; framan af gerðu sveitarfélögin ekki endilega kröfur, þau litu ekki á þetta sem stórt mál og litu jafnvel svo á að þetta jafnaðist út því að auðvitað væru flutningar í báðar áttir og einhver fjöldi nemenda væri með lögheimili annars staðar en hér, en þá væru aðrir í staðinn á móti o.s.frv. Svo fóru menn að vilja fara í uppgjör á þessu og kannski voru það aðallega stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem töldu að þau væru svo miklu meira veitendur en þiggjendur að það gengi ekki lengur upp. Við þekkjum þá sögu.

Varðandi skólahugmyndina skil ég það út af fyrir sig ef það er að einhverju leyti hugsað til að tryggja þeim sem ætla sér lengra í þessum efnum nám af mestu gæðum til undirbúnings frekara námi, þess vegna utan lands í tónlist, en það er auðvitað ekki alltaf þannig að þegar menn færast af grunnstigi upp á miðstig liggi leiðin alveg ljós fyrir. Það er nú kannski dálítið opið hjá nemendum á einhverju árabili þar hvað verður í þeim efnum.

Ég mæli ekki með því að fara þá drastísku leið að ríkið taki þetta allt saman til sín aftur. Það held ég að ætti að vera algjör þrautalending, aðallega vegna þess að ég held að það yrði ekki til styrktar tónlistarskólastarfinu í heild sinni, vegna þess að mér finnast samlegðaráhrifin svo augljós ef hægt er að finna út úr þessu með öðrum hætti. Ég styð það því heils hugar að menn reyni það til þrautar í þessum viðræðum eða þessari nefnd sem er í gangi og vona það besta í þeim efnum.