144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er akkúrat spurningin hverjir það eru sem þurfa á því að halda að geta farið á milli skólanna og á milli sveitarfélaga. Ég held að það gæti verið ágæt lausn að leggja það upp með þeim hætti sem ég hef verið að lýsa hér. Það er líka rétt að hafa það í huga að þeir sem eru til dæmis að fara í tónlistarnám sem háskólanám eru mjög gjarnan einstaklingar sem eru tiltölulega snemma á ferðinni, hafa sérstaka hæfileika á þessu sviði fremur en þeir sem eru að fara í hefðbundið bóknám, svo dæmi sé tekið. Það þurfa að vera til námsúrræði fyrir þá nemendur.

Hvað varðar síðan þann þáttinn sem hv. þingmaður ræddi um varasjóð húsnæðismála. Ég get alveg skilið þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur, en ég vil þó benda á það að af því að þetta verkefni er hjá sveitarfélögunum, það er ekki ríkið sem er með þetta verkefni, ríkið hefur bara bætt við fjármunum til að styðja við það, er eðlilegt að sveitarfélögin komi með lausnir á þeim vanda sem myndast hefur meðal annars vegna þess hvernig Reykjavíkurborg hefur skilið þetta samkomulag. Það er ekki ríkisins að koma síðan með aukna fjármuni umfram það sem er í samkomulaginu, það er sveitarfélaganna sjálfra. Þau hafa sjálf sagt (Forseti hringir.) að það sé mikilvægara að þeirra mati, og það kemur fram í greinargerðinni, að ákveðnir fjármunir fari til að leysa það vandamál, en fara í varasjóðinn. (Forseti hringir.) Það kann að vera að það sé umdeilanlegt mat, en það hljóta að vera sveitarfélögin sem þurfa að koma með lausn á þessu vegna þess að ríkið er búið að gera sitt í samkomulaginu.