144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég heyri að við erum bæði kannski ekki með nógu djúpa innsýn í stöðu varasjóðsins og það er eins gott að maður kynni sér það hér í umræðunni hver þessi staða er. Ég verð að segja að mér finnst furðulegt að setja nefndina í þá stöðu að flytja þetta mál þegar verið er að taka fjármuni úr allt öðrum málaflokki, fjármuni sem ég gæti séð fyrir mér — fyrst það eru 30 milljónir á lausu þá væri nú ágætt að nýta það til að kortleggja stöðu húsnæðismála í sveitarfélögum landsins því að ekki eru nógu öflugar upplýsingar til um það hér á landi.

En ég vil líka segja að það er furðulegt núna því að dagskrá þingsins virðast engar skorður settar, það virðist vera sem hér eigi að vera að störfum fram eftir sumri, að þá hefði ráðherra náttúrlega verið í lófa lagið að flytja málið sjálfur. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður viti af hverju hann gerði það ekki.