144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef engar beinar upplýsingar um það. Maður getur auðvitað látið hugann reika og kannski hefur hæstv. ráðherra ekkert verið sérstaklega ginnkeyptur fyrir því að koma með þetta mál í ljósi þess í hvers konar klessu þetta er allt saman og verið því afar feginn að allsherjar- og menntamálanefnd tók að sér kaleikinn.

Nú flytur nefndin málið og þá mundu menn sjálfsagt ekki reikna með því að það færi aftur til nefndar, en ég verð að segja alveg eins og er að komi ekki einhver skýrari svör um það í hvaða samhengi þetta er varðandi framtíð varasjóðs húsnæðismála og eftir atvikum líka hver staðan sé á því nefndarstarfi á vegum hæstv. menntamálaráðherra um tónlistarnámið og samskipti aðila þar, þá fyndist mér að af því við höfum nógan tíma, herra forseti, og allt sumarið fram undan, að allsherjar- og menntamálanefnd ætti að taka málið aftur til sín milli 1. og 2. umr. og fá á sinn fund félags- og húsnæðismálaráðherra, fá á sinn fund jafnvel jónsmessufulltrúana í jónsmessunefnd, sem eru þá best inni í (Forseti hringir.) þessum samskiptum ríkis og sveitarfélaga um tekjur og verkefni, og eftir atvikum líka nefndina sem hæstv. menntamálaráðherra var að upplýsa hér um að væri að störfum og að (Forseti hringir.) reyna að ná einhverju samkomulagi um fyrirkomulag þessara tónlistarskólamála.