144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er nú einmitt vandinn. Sjóðurinn er nefnilega ekki búinn að ljúka hlutverki sínu og er ekki óþarfur. Hann á eftir að klára málin hjá hluta af sveitarfélögunum í landinu eins og ég fór aðeins yfir í ræðu minni. Það væri að mínu mati gróft brot á jafnræði milli sveitarfélaga ef þau sveitarfélög sem enn eru í talsverðum vanda, sérstaklega hvað varðar það að hafa ekki náð að selja og létta af skuldum vegna félagslegs húsnæðis af því að markaðsaðstæður viðkomandi sveitarfélaga hafa ekki boðið upp á það. Það hefur verið það hlutverk sjóðsins sem menn hafa aðallega horft til undanfarin ár. Hann hefur reynt af veikum burðum undanfarin ár að hleypa kannski nokkrum sölum í gegn á hverju ári fyrir þessa takmörkuðu fjármuni sem hann hefur haft. Sveitarfélög hafa sent inn beiðnir eða umsóknir og fengið kannski eina íbúð á ári, eina eða tvær, nokkur sveitarfélög í senn, og hefur alls ekki mætt þörfinni eins og hún hefur verið undanfarin ár. Það þarf að mínu mati að kortleggja og horfa til þess hvað stendur eftir af þessum vanda sem er sambærilegur við þann sem önnur sveitarfélög eru búin að fá aðstoð við að (Forseti hringir.) leysa gegnum sjóðinn á umliðnum árum og ætla sjóðnum fjármuni og líftíma til þess að klára það þannig að sæmilega sé gætt að jafnræði í þessum efnum.