144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[18:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við höfum lagt fram þessa dagskrártillögu og teljum brýnt að taka þau mál á dagskrá sem þar eru. Eins og málin standa núna virðist vera að við eigum að vera hér áfram fram á haust og þetta renni allt saman út í eitt. Þau mál sem hér er lagt til að verði rædd eru öll brýn mál. Eins og fram hefur komið höfum við beðið lengi eftir því að ræða stöðuna á vinnumarkaði og nú blasir við alvarlegt ástand á Landspítalanum í kjölfar þess að lög voru sett á verkfall heilbrigðisstarfsmanna eða hjúkrunarfræðinga og félaga innan BHM svo þarna er fjöldi mála sem við þurfum að taka á dagskrá og ræða hér. Við í stjórnarandstöðunni teljum mikilvægt að þau hafi þá forgang í dagskránni miðað við að við munum vinna hérna fram á sumar og að sumar og haust renni saman í eitt.