144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[18:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Varla erum við hérna stödd núna vegna þess að það sé verið að bíða eftir að slá met fyrri ríkisstjórnar. [Hlátur í þingsal.] Ég ætla rétt að vona að það sé ekki tilgangurinn, en hver veit, kannski leysist þetta eftir tvo daga þegar markinu er náð.

Við höfum á dagskránni umræðu sem við í Vinstri grænum höfum óskað eftir, þ.e. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, um áhrif fyrirhugaðra skattbreytinga á jöfnuð í samfélaginu. Hvað á það að þýða að menn telji sig ekki geta bætt neinu inn í kjarasamninga heilbrigðisstétta og afsali sér tekjum upp á fleiri tugi milljarða? Við stöndum frammi fyrir því að það eru stanslaus mótmæli. Núna er verið að mótmæla hérna fyrir utan að ekki séu fjárveitingar í túlkasjóð heyrnarlausra. Það hafa verið mótmæli hérna undanfarið, 17. júní og áður, gegn þessari ríkisstjórn. Ætlar ríkisstjórnin ekkert að opna eyru sín fyrir því hvað fólk er að tala um úti í þjóðfélaginu og hver skilaboðin eru? (Forseti hringir.) Hvernig væri nú að hlusta á svokallaða grasrót og taka eftir því sem er (Forseti hringir.) til umræðu í þjóðfélaginu og fara heim og gera (Forseti hringir.) eitthvað þarfara?