144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[18:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan getur ekki borið ábyrgð á verkstjórn í þinginu og blessunarlega (Gripið fram í.) er stjórnarandstaðan á Alþingi ekki jafn heillum horfin og sú síðasta sem tilkynnti ríkisstjórninni að hún gæti fengið sjö mál að eigin vali afgreidd. Það gerði þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili. Það gerum við ekki. Við gerum aðeins tillögu um það að fyrst ríkisstjórnin vill halda þingi áfram endalaust, brjóta rétt á starfsmönnum Alþingis, koma í veg fyrir að þeir geti fengið að njóta samvista við fjölskyldur og fara í sumarleyfi eins og þeir hafa gert ráðstafanir (VigH: Jólaþingið.) gagnvart, (VigH: Jólaþingið.) þá ræðum alla vega það sem máli skiptir í samfélaginu og ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta ekki spilað sóló án þess að eftirlitshlutverk löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu sé virkt. Það er grundvallarkrafan hér. Vegna þess að menn eru að bera sig saman um lengd þinga þá er þetta nú þegar orðið lengsta þing sögunnar. Það var sett (Forseti hringir.) fyrir 10. september, fyrsta skipti í þingsögunni (Forseti hringir.) sem þing er sett svo snemma.