144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[18:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um sérstakar umræður og af hverju þær hafi ekki farið fram og ég tek undir að það er mjög einkennilegt fyrst við erum með þing í gangi að sérstakar umræður fari ekki fram. Ég er með eina beiðni sem ég lagði fram fyrir nokkru um að efna til sérstakrar umræðu um þinghaldið og störf þingsins og breytingar á þingsköpum í kjölfarið á hugmyndum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um alls konar breytingar á þingsköpum sem margar eru athyglisverðar. Ég held að það væri mjög gott að taka það mál til umræðu hér einhvern daginn miðað við það hvernig þingið er.

Svo vil ég líka leggja minn vitnisburð í púkkið varðandi samninga um þinglok. Fyrir þó nokkru síðan náðust samningar við Sjálfstæðisflokkinn og er auðvitað mjög sérstakt að stjórnarflokkarnir skuli vera komnir á þann stað í sínum samvistum að þeir eru farnir að semja hvor í sínu lagi við stjórnarandstöðuna. En út af fyrir sig þá gætum við leyst þessa klemmu sem þingið er komið í með þeim hætti sem hæstv. ráðherrar sjálfir hafa margoft (Forseti hringir.) látið í ljós hér með því einfaldlega að meiri hlutinn ráði og framsóknarmenn geta þá (Forseti hringir.) beitt þeim aðferðum sem þeir hafa kannski í sínu verkfæraboxi, t.d. málþófi, til þess að reyna að stoppa þær ákvarðanir.