144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[19:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér eru hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans að greiða atkvæði gegn því að við ræðum kjaradeilurnar og afleiðingar þeirra í heilbrigðiskerfinu. Hvers vegna ætli það sé? Ætli það sé vegna þess að hér er komið upp á yfirborðið að menn hafa enga stefnu, engar lausnir og engin svör við því þegar 200 heilbrigðisstarfsmenn hafa nú sagt upp störfum? Hér er líka verið að leggja til að rætt verði um verðtrygginguna og menn greiða atkvæði gegn því, máli sem menn hafa haldið fram að sé eitt það stærsta í okkar sögu og Framsóknarflokkurinn lofaði miklu í. Af hverju vilja menn ekki ræða það? Getur það verið vegna þess að þá kemur í ljós að menn geta ekkert gert, ætla ekki að gera neitt? Og það hefur í raun verið staðfest af formanni fjárlaganefndar í útvarpsviðtali að menn ráða ekkert við verðtryggingarverkefnið. En þeir þora bara ekki að taka á því hér í umræðu.

Virðulegi forseti. Réttur okkar þingmanna er sá að hér sé starfsumgjörð utan um okkar vinnu þannig að við getum veitt framkvæmdarvaldinu aðhald og hér þarf að vera í gildi starfsáætlun þar sem gert er ráð fyrir því að við eigum samtöl við ráðherrana. Það er ekki hægt (Forseti hringir.) að halda okkur frá samtali við ráðherrana svo vikum (Forseti hringir.) og mánuðum skiptir, virðulegi forseti.