144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[19:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari dagskrártillögu sem er mjög mikilvæg og mjög málefnalega undirbyggð. Ég spyr: Af hverju segir stjórnarmeirihlutinn nei við þessu máli? Af hverju? Er það vegna þess að stjórnarmeirihlutinn vill ekki ræða stöðuna á vinnumarkaði? Er það vegna þess að stjórnarmeirihlutinn vill ekki ræða loforð Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar? Er það vegna þess að stjórnarmeirihlutinn vill ekki ræða félagsleg áhrif skattbreytinga? Er það vegna þess að stjórnarmeirihlutinn vill ekki ræða um öryggi sjúklinga í kjölfar fjöldauppsagna heilbrigðisstarfsfólks?

Hvað af þessum fjórum málum er þannig vaxið að meiri hluti þingsins treystir sér ekki til að ræða viðkomandi mál? Hvaða mál er svona vont? Hvaða mál er svona óþægilegt? Hvaða sannleikur er það sem er óbærilegur fyrir núverandi stjórnarmeirihluta að horfast í augu við?