144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að tala um einelti. Mér finnst það gjaldfelling á hugtakinu „einelti“ hvernig fólk fer með það hér gagnvart ráðandi mönnum í samfélaginu eins og ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem hafa öll tögl og hagldir í höndum sér, forseti þingsins hefur það líka, og að tala um einelti þegar fólk gagnrýnir störf mótherjans inni á þingi er gjaldfelling á hugtakinu því við vitum um mjög marga sem eiga verulega um sárt að binda vegna þess að þeir hafa orðið fyrir einelti. Fólk sem starfar og hefur starfað í grunnskólum eða framhaldsskólum á að vita betur en svo að leggja þetta að jöfnu að mínu viti.

Það sem ég ætlaði hins vegar að vekja athygli á, og ég hvet þá sem hér eru í meiri hluta og hafa kannski eitthvað meira með það að gera en við í minni hlutanum, er að það er búið að auglýsa störf sem Námsmatsstofnun á að hafa með höndum. Eins og við þekkjum þá er verið að reyna að koma hér í gegn frumvarpi um Menntamálastofnun sem á að taka við þeim hlutverkum. Þessi störf, tíu að minnsta kosti, eiga öll að vera staðsett hér fyrir sunnan. Hér var gerð tilraun til að reyna að flytja Fiskistofu með manni og mús sem ekki tókst. Þetta eru störf sem áætlað er að verði til fimm ára og ég vil spyrja hvort það sé ekki hugmynd sem við ættum að leggja lið að t.d. einhver af þessum störfum gætu verið tengd Háskólanum á Akureyri, verið staðsett þar. Þetta þarf ekki allt að vera á sama stað, teymi geta unnið saman, við þekkjum það sem höfum starfað í slíku. Ég hvet landshlutasamtök sveitarfélaga til að láta í sér heyra og hvetja til þess að að þessu verði hugað en fresturinn rennur út 29. júní. Ég hvet auðvitað meirihlutafólkið til að ræða þetta við ráðherra sinn, menntamálaráðherra sem hefur með þetta að gera, að sjá til þess að þessi störf geti verið staðsett að einhverju leyti úti á landsbyggðinni.