144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Margoft hef ég tekið hér upp málefni sparisjóðanna. Þó að margt sé sem okkur í þinginu greinir á um þá hygg ég að segja megi að allir stjórnmálaflokkarnir standi sameinaðir um þá ósk að hægt væri að byggja aftur upp sparisjóðakerfið á leifum þeirra sparisjóða sem þó lifðu af hrunið. En nú vil ég vekja athygli hv. þingmanna á þeirri staðreynd að á örfáum vikum hafa bankarnir þrír hirt upp af götu sinni og sporðrennt þrem af stærstu sparisjóðunum. Það byrjaði með sparisjóðnum í Vestmannaeyjum, AFL var tekið næst og núna um síðustu helgi Sparisjóður Norðurlands. Það er með ólíkindum að sjá hvernig mynstrið er.

Það sem einkennir þessa atburðarás er að um leið og það koma fjárfestar ýmist með innlenda eða erlenda peninga og sjá viðskiptatækifæri í sparisjóðunum þá koma stóru bankarnir og gleypa þá. Og ég spyr: Hvar er Fjármálaeftirlitið? Hvar er Samkeppniseftirlitið? Bankarnir fá þá ókeypis eins og hefur komið fram í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni varðandi Landsbankann og Sparisjóð Vestmannaeyja, Landsbankinn fær greitt með honum hundruð milljóna í formi yfirfæranlegs taps, skattalegs taps. Þar að auki fá bankarnir viðskiptavinina sem fylgja.

Það sem mestu skiptir fyrir bankana og mestu skiptir líka fyrir okkur neytendur er að með þessu eru bankarnir að ryðja burt mögulegum keppinaut í framtíðinni. Sparisjóðabanki hefði orðið eina mótvægið við þá banka sem samkvæmt yfirliti yfir vexti í síðustu skýrslu Seðlabankans um fjármálalegan stöðugleika eru með hæsta vaxtamun sem hægt er að finna í Evrópu. Ég spyr: Er þetta mál, tildrög þess og hvernig það er allt saman vaxið, ekki eitthvað sem efnahags- og skattanefnd þingsins þarf að rannsaka, ef ekki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, (Forseti hringir.) því hér er ekki góður ilmur af því hvernig bankarnir hafa hagað sér?