144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera vinnustaðinn Alþingi að umtalsefni mínu í dag. Hér erum við öll saman komin, alþingismenn. Öll vorum við kosin til starfa í apríl 2013. Á bak við hvern þingmann er fólk sem hefur trú á honum og því sem hann hefur fram að færa. Það er staðreynd sem við þurfum að bera virðingu fyrir. Ég reikna fastlega með því að hvert og eitt okkar sé hér með það að leiðarljósi að vinna landi og þjóð gagn. En það er ekki alltaf augljóst þeim sem fylgjast með störfum okkar og landsmenn hafa ýmsar skoðanir á því. Það hef ég líka en er þess þó fullmeðvituð að ég hef ekki umboð til að ala aðra upp eða segja þeim til um framkomu og samskipti.

Ég vil þó deila þeim hugsunum með ykkur að margt sem fram fer hér í þessum sal mundi ég aldrei líða í kennslustofu. Einhvers staðar virðist sumum hafa verið úthlutað leyfi til að láta flest vaða sem þeim dettur í hug, hömlulaust að því er mér virðist. Ég veit ekki hvar slík leyfi fást og langar ekki til að afla mér þeirra.

Nú standa yfir samningaumleitanir vegna þingloka. Varðandi þau hefur ýmislegt verið sagt en alltaf legið ljóst fyrir að verið er að semja um heildarpakka mála sem afgreidd verða. Það er ekki flokkaskipt. Nú á eftir funda formenn okkar og reyna að leiða mál til lykta. Ég óska þeim góðs gengis og vona að fundur þeirra verði árangursríkur.

Hæstv. forseti. Mig langar enn og aftur til að gera orð Páls heitins Skúlasonar að lokaorðum mínum, með leyfi forseta:

„Forsenda þess að bæta heiminn er að takast á við spillinguna í sjálfum sér, það að vera manneskja er að reyna að bæta sjálfan sig.“