144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það eru orð að sönnu sem hv. þm. Þórunn Egilsdóttir mælti hér; hún vitnaði til orða Páls Skúlasonar að síðustu í ræðu sinni. Maður getur í raun bara borið ábyrgð á sjálfum sér í því starfi sem við fáumst við í þessari stofnun.

Ég hef nú verið hér í rúm sex ár og reglulega hafa komið upp ákveðnar krísur sem erfitt hefur reynst að leysa. Það hefur þó alltaf tekist vegna þess að menn hafa verið tilbúnir til að setjast niður og ræða saman og bera virðingu fyrir skoðunum hver annars. Ég hef fulla trú á því að við munum leysa þann vanda sem við blasir núna þó að ég hafi sjaldan séð það svartara, svo að það sé nú bara sagt alveg eins og það er. Engu að síður: Samtalið verður að halda áfram. En ég er svolítið ósammála þeim sem segja að þetta gefi mjög slæma mynd af þinginu vegna þess að ég held að fólk sé löngu hætt að fylgjast með því sem hér er í gangi.

Ég verð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að leiðsegja fólki um fjöll og firnindi í frítíma mínum, gerði það í Vestmannaeyjum nú um helgina og varð frá að hverfa úr miðri gönguför. Þegar ég sagði fólki frá því að ég væri að fara til vinnu var spurt: Nú, er þingið enn þá starfandi?

Þó að kannski sé ekki byggjandi á því þá held ég að mun færri séu að fylgjast með því sem er í gangi hér en fólk ímyndar sér. Það breytir því ekki að við þurfum að ljúka þingstörfum og við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þegar við erum að semja um þinglok og meðferð mála, sem komið hafa fram seint í þinginu, þá erum við alltaf að semja um að mál fari í gegn með eins lítilli umræðu og mögulegt er.

Við sem erum hér erum kosin af ólíkum einstaklingum og ólíkum þjóðfélagshópum, erum kosin til þess að vera fulltrúar þeirra sjónarmiða. Það er þess vegna með mikilli ábyrgð þegar menn fallast á að mál (Forseti hringir.) fari í gegn án mikillar umræðu út af því að það er það sem starfið snýst um. Við verðum (Forseti hringir.) að bera virðingu fyrir þeirri staðreynd, virðulegur forseti.