144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

orð þingmanna í garð hver annars.

[14:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér sýnist þá að það verði fundað um þetta ef ég skil síðasta hv. ræðumann rétt.

Mig langar til þess að nefna það að hér förum við oft í umræðu um fundarstjórn forseta og ég vil ítreka þá hugmynd sem ég hef oft komið fram með sem er sú að við ræðum það sem sérstakt málefni með fullum ræðutíma, með andsvörum og svo framvegis vegna þess að mér finnst full þörf á því. Það er oft kvartað undan því hvað við notum þennan lið mikið. Sannleikurinn er sá að þingstörfin sjálf, hvernig þingið virkar, þarf umræðu, það er ekki þannig að menn komi hérna upp bara vegna þess að menn séu svo vondir og leiðinlegir og óþolandi. Það er greinilegur ágreiningur um það hvernig eigi að haga störfunum hérna og þá er sjálfsagt að við ræðum það hreinskilnislega og höfum til þess vonandi meira en eina mínútu í einu.

Að lokum vil ég bara segja að ég trúi því að hv. þingmaður sem talaði hér um einelti áðan hafi talað af auðmýkt og einlægni. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim hv. þingmanni, en mér finnst það mikilvægt að við höldum þessu orði (Forseti hringir.) til haga sem mjög alvarlegu orði sem við eigum ekki að nota um ráðamenn þjóðarinnar.