144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

orð þingmanna í garð hver annars.

[14:14]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem nú ekki endilega upp til að kvarta yfir fundarstjórninni en mér sýnist þessi dagur ætla að byrja eins og flestallir núna undanfarið á þessum leik hér í pontunni um fundarstjórn forseta. Það var opið hús hér á laugardaginn, sem var virkilega skemmtilegt og gekk vel og það var gaman að finna hvað það var góður andi í húsinu. Ég sat hérna inni í hliðarherbergi og talaði við einn af starfsmönnum þingsins og við vorum að ræða hvernig ástandið væri búið að vera hérna undanfarið. Þá kom hún með þá frábæru uppástungu, að mér fannst, að hæstv. þingforseti ætti að hefja alla þingfundi á söng, að við ættum að syngja eitt lag saman áður en við byrjuðum þingfundi. Mér finnst það frábær hugmynd. Síðan ættum við í kjölfarið að íhuga í fimm mínútur í þögn. Ég get alveg lofað ykkur því að það mundi svínvirka, þá mundi kannski ástandið verða betra hérna og við gætum boðið fólki upp á gott þing. Það hefur verið reynt í skólum í Bandaríkjunum, íhugun í 15 mínútur í erfiðustu skólum Los Angeles, og það virkaði. Þeir eru með þeim bestu í dag.