144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:07]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu sem var auðvitað samkvæmt málinu, enda situr hv. þingmaður í allsherjarnefnd. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir samstarfið í nefndinni vegna þess að flutningsmanni láðist að þakka fyrir það ágætissamstarf þegar mælt var fyrir málinu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hér á þingi sitja fulltrúar ýmissa flokka sem starfa jafnframt í borgarstjórn Reykjavíkur, standa þar að meirihlutasamstarfi: Hvernig hafa þau sjónarmið blandast hér í umræðuna varðandi afstöðu Reykjavíkurborgar til málefna tónlistarskólanna? Það hefur kristallast í vinnu okkar í allsherjarnefnd í mörg ár, eða þau tvö ár sem við höfum setið saman í allsherjarnefnd, að það er Reykjavíkurborg ein sem skilur þetta samkomulag á allt annan hátt en öll önnur sveitarfélög á Íslandi, allt öðruvísi en allir aðrir sem stóðu að því að undirrita það. Við höfum fengið lýsingar á því í nefndinni hvernig upplifun manna er af afstöðu Reykjavíkurborgar. Kannast hv. þingmaður við það að hingað upp hafi komið þingmenn sem starfa í þeim flokkum sem standa að meirihlutasamstarfi í Reykjavíkurborg og útskýrt það fyrir okkur hinum hvers vegna Reykjavíkurborg tekur á málunum með þessum hætti, þannig að við í þinginu þurfum að vera að bera fram mál eins og þetta? Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að Reykjavíkurborg hefur túlkað þetta samkomulag á allt annan hátt en önnur sveitarfélög í landinu.