144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er þingmaðurinn reyndar líka fyrrverandi fjármálaráðherra og ég vil því spyrja hana hvort það sé ekki einmitt þar sem þetta mál eigi uppruna sinn, þ.e. sá vandræðagangur ráðherrans að þurfa að leita til nefndarinnar um að flytja mál sem hann ætti í raun sjálfur að flytja, sem liggur í því að fjárhagsvandi tónlistarskólanna og allur vandræðagangur Sjálfstæðisflokksins með málefni tónlistarskólanna undanfarin tvö ár stafi einfaldlega af því að menntamálaráðherra hafi ekki getað forgangsraðað fjármunum eða sótt fjármuni í fjárlagagerðinni til þeirra hluta sem gera þarf í tónlistarnáminu. Hann hefur trúlega skort afl eða stuðning til þess að hrinda þeim áformum sem þingmaðurinn lýsti sem ágætum í framkvæmd. Við höfum jú orðið vitni að því ítrekað í þinginu að forustan í fjárlaganefndinni, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur ekki beinlínis greitt leið menntamálaráðherra með fjárveitingar í þinginu. Er það ekki í raun og veru það sem skapar slíkt neyðarástand í tónlistarskólunum, þ.e. sundrungin innan stjórnarflokkanna í þessum málaflokki, og það að jafnvel þó að menntamálaráðherra vilji koma einhverju fram í þessu þá fær hann það ekki, hvorki fyrir flokkssystkinum sínum né fyrir samstarfsflokknum vegna þess að fjármunina skortir einfaldlega?