144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að dvelja aðeins lengur við varasjóð húsnæðismála. Ég tek undir mikilvægi þess að ganga í þetta mál og ég held að sé afar mikilvægt að við tryggjum það að tónlistarskólarnir verði ekki afvelta sökum í raun og veru verkleysis ráðherrans og það er ótækt að láta svo mikilvægan þátt í íslensku menningarlífi og menntunarumhverfi líða fyrir það. Hins vegar er ég mjög hugsi yfir þessari stjórnsýslu. Eitt er að nefndin neyðist til þess að flytja málið vegna þess að það kemur seint og líka vegna þess að þetta er klúður í utanumhaldi að svo mörgu leyti, en annað er að færa fjármuni innan kafla í fjárlögum til þess að bjarga fyrir horn tilteknum og fyrirséðum vanda. Þá velti maður fyrir sér: Hvaða kríteríur þarf slík ákvörðun að uppfylla? Gætum við til dæmis séð fyrir okkur að liðurinn um ófyrirséð útgjöld væri eitthvað sem mætti nota í svona uppákomur varðandi tónlistarskólana? Væri hægt að hætta við að kaupa einhvern ráðherrabíl? Eða væri hægt að hugsa sér að liðurinn Græna hagkerfið sem hefur nú verið notaður til ýmissa hluta væri notaður í þennan þátt?

Það sem ég hef áhyggjur er að annars vegar erum við hér með frumvarp um opinber fjármál þar sem ná á betri og agaðri umsýslu fjármuna ríkisins og hins vegar kemur svona tilviljanakennd tilfærsla opinbers fjár sem er í raun og veru borin uppi af fagnefndinni sem fer bara með útgjaldahluta (Forseti hringir.) tilfærslunnar, þ.e. tónlistarskólamegin en ekki húsnæðismálamegin. Maður veltir þessu fyrir sér, virðulegur forseti.