144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[22:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hugsanlega hef ég meiri trú á hv. þingmanni en hún sjálf og met aðkomu hennar að þessu máli miklu betur en hún virðist gera að verðleikum. Hv. þingmaður tók við vandamáli sem beið hennar í ráðuneytinu á sínum tíma og það var nánast ókleifur hjalli miðað við þá erfiðleika sem þá voru uppi í samfélaginu og í ríkisfjármálum. En á tveimur árum leysti hún það og ekki bara það, þegar hún fór úr ráðuneytinu þá skildi hún eftir skapalón, nánast sjókort til lífhafnar í þessu máli. Hæstv. ráðherra í þessari tíð sem ég lýsti áðan, hunangstíð núverandi ríkisstjórnar, hefur haft tvö ár til þess að leysa þetta, hann hefur ekki gert það. Hann hefur lagt fram bæði árin sem hann hefur setið í embætti þingmálaskrá þar sem hefur verið að finna endurskoðun, gott ef það var ekki heildarendurskoðun á málefnum tónlistarmenntunar í landinu. Nú er hann kominn með hugmynd sem ég vil taka algjörlega skýrt fram að er, eftir því sem ég skoða hana betur, flott hugmynd, en hún er viðbót. Þessi hugmynd er viðbót við núverandi tónlistarnám, kærkomin viðbót. Sannarlega er gott að fá það sem ég hef skilgreint sem tónlistarnám á háskólastigi. Hv. þingmaður kallar það fjórða stigið og ég veit að það er til sem óskilgreint en loðið hugtak hjá nokkrum tónlistarskólum, því eftir er að útfæra það. En þetta kallar á viðbótarfjármagn. Af því hv. formaður fjárlaganefndar Vigdís Hauksdóttir gekk hér um sali þvert áðan þá ætla ég að það verði gríðarlega erfitt að fá til viðbótar fjármagnið sem þarf til að leysa það vandamál sem hér er undir, þau hundruð milljóna sem ég vil fullyrða að fullskapaður skóli eins og hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) lýsti hér í gær hlýtur að kosta. Sú hugmynd leysir ekki þennan vanda.