144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[22:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á að þetta mál snúist ekki um túlkun ólíkra sveitarfélaga á stöðunni heldur um það að framlengja samkomulag ríkis og sveitarfélaga vegna þess að framtíðarsýn liggur ekki fyrir. Fyrirkomulag um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hefur ekki verið lögfest.

Eins og ég sagði áðan þá hef ég ekki verið sammála túlkun Reykjavíkurborgar en tek það á mig að þegar samkomulagið var undirritað var boðað að þessi skipting yrði skýrð í nýjum lögum um málefni tónlistarskóla. Það frumvarp lá fyrir. Þó að hv. þm. Össur Skarphéðinsson telji að ég geri of lítið úr mínu framlagi í því þá hefði ég gjarnan viljað ljúka því fyrr, en ég sé í raun og veru enga skýringu á því af hverju því máli hefur ekkert miðað síðan í þau tvö ár sem það frumvarp hefur legið fyrir, svo það sé sagt.

Það er alveg rétt, svo að við gætum allrar sanngirni, að staða tónlistarnáms í Reykjavík er frábrugðin öðrum sveitarfélögum, ekki síst vegna þess að þetta er höfuðborg og ekki síst vegna þess að í Reykjavík hefur verið það fyrirkomulag að tónlistarskólar eru sjálfstætt starfandi vegna þess að hlutverk þeirra hefur verið annað en í smærri sveitarfélögum þar sem algengt er að sveitarfélögin reki þá. Það hefur auðvitað aukið flækjustig þegar kemur að hagnýtum spurningum um yfirsýn yfir nemendabókhald og annað að fjöldinn allur af sjálfstætt starfandi skólum skapar mikla flóru í tónlistarnámi, en gerir það að verkum að samskipti sveitarfélagsins við þessa skóla er annað þar sem sveitarfélagið rekur sjálft skólana. Það er hluti af vandanum. Á sínum tíma þegar við ræðum þennan túlkunarvanda var framlag ríkisins til málsins að sumu leyti vanáætlað vegna þess að yfirsýn yfir nemendafjöldann á framhaldsstigi var ekki nægjanlega góð. Á móti kemur að beint í kjölfar samkomulagsins gerðu sveitarfélögin nýja kjarasamninga við tónlistarkennara sem skapaði auðvitað vanda þegar (Forseti hringir.) framlagið miðaðist við fyrri kjarasamninga. Þetta eru mál sem þarf að leysa. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Svo ég fái aðeins að syndga upp á tímann þá var eitt af því sem lagt var til í frumvarpinu sérstök samráðsnefnd um málefni tónlistarskóla þar sem ríki, sveitarfélög og skólar áttu að eiga aðila, þannig að alþingismenn þyrftu ekki að ræða atriði á borð við þessi í umræðum á þinginu.