144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

leiðrétting þingmanns.

[15:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég er kominn í ræðustól að áeggjan hv. þm. Róberts Marshalls. Ég sagði hér í ræðu í gær að hann hefði kallað pólitíska andstæðinga sína pólitíska hryggleysingja og skriðdýr. Það er ekki rétt. Ég biðst velvirðingar á því og mig langar að fá að fara rétt með það sem hv. þingmaður sagði í umræðum 24. febrúar 2014, með leyfi forseta:

„Virðulegur forseti. Í þessu máli opinberast hvers lags pólitískir hryggleysingjar það eru sem skipa þessa ríkisstjórn, hvers lags pólitísk lindýr það eru sem þora ekki að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu …“

Þarna varð mér á í messunni, herra forseti. Ég sagði að hv. þingmaður hefði sagt skriðdýr en hann hafði sagt lindýr um pólitíska andstæðinga sína. Hafa skal það sem sannara reynist og ég er fús að leiðrétta þennan misskilning.