144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í gær fjölluðu þau hv. þingmenn Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Össur Skarphéðinsson um yfirtöku viðskiptabankanna á þremur sparisjóðum. Í ræðum sínum ræddu þau afskiptaleysi Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlitsins gagnvart þessum yfirtökum.

Það er einmitt það sem mig langar til að ræða núna, eftirlitshlutverk og afskiptaleysi þessara stofnana. Undanfarna mánuði hefur fólk komið að máli við mig sem hefur verið í vandræðum með viðskiptabankana. Þessir einstaklingar eiga það sameiginlegt að fá ekki úrlausn sinna mála innan þessara fjármálastofnana en umræddir einstaklingar hafa verið með erlend eða gengistryggð lán sem hafa verið dæmd ólögmæt bæði í héraðsdómi og Hæstarétti Íslands. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir að ýmsir hagfræðingar, m.a. innan háskólans, og sameiginlegir matsmenn þessara einstaklinga og viðskiptabankanna hafi komist að niðurstöðu um endurútreikning neita enn viðskiptabankarnir að reikna út lán einstaklinganna.

Þessir einstaklingar hafa meðal annars leitað réttar síns hjá Fjármálaeftirlitinu vegna framgöngu þessara viðskiptabanka. Til að gera langa sögu stutta er það svo að allir benda á einhvern annan sem á að bera ábyrgðina. Það hefur gert það að verkum að þessir einstaklingar hafa ekki fengið nokkuð að gert í sínum málum. Einu svörin sem fólk fær er að atvikið verði skráð en ekki sé hægt að gera nokkuð annað.

Á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins má sjá að stofnunin á meðal annars að hafa eftirlit með starfsemi viðskiptabanka en þar á virðist vera nokkur misbrestur þannig að ég vildi bara taka undir það að ég er verulega hissa á því afskiptaleysi sem þarna virðist vera.