144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á þessum fallega degi, Jónsmessunni, langar mig aðeins að ræða það sem við höfum verið að ræða undanfarið á þingi, vonandi við þinglok á næstunni, að mikið ósætti sé í gangi innan veggja þingsins, milli þingmanna, jafnvel einelti. Mín upplifun af þessum vinnustað síðustu sex ár er nú ekki þannig og ég tel að yfir vötnum svífi heilt yfir góður andi þvert á flokka, vinskapur þvert á flokka, jafnvel innan flokka er vinskapur [Hlátur í þingsal.] svo ég held að við hv. þingmenn séum ekkert svo slæm þegar upp er staðið. Ég óska þess að við getum haldið áfram að rækta hérna góða vináttu milli okkar þingmanna burt séð frá pólitískum ágreiningi. Það er heilbrigt að takast á um pólitík og til þess erum við kjörin á Alþingi, til að takast á um pólitíkina.

Við notum oft myndlíkingar, notum íslenskuna til að tjá skoðanir okkar á pólitík, en þar með er ekki sagt að við séum að meina það í orðsins fyllstu merkingu gagnvart þeim sem við erum að tjá skoðanir okkar gagnvart. Ég held að við megum ekki vera of viðkvæm fyrir okkur sjálfum, við ættum frekar að halda áfram að nota kjarnyrta íslenska tungu en hjóla ekki í manninn heldur málefnið. Við verðum að bera virðingu hvert fyrir öðru, halda áfram að elska náungann og þjóðina okkar og reyna að gera það besta sem við getum, hvert með sínu lagi.

Að lokum legg ég til að kvótakerfið verði lagt af í núverandi mynd.