144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Það er ekki að furða að við séum sjálf uppteknust af okkur sjálfum þessa dagana, en það er dálítill hópur af fólki hérna úti sem býr við skerta möguleika á tjáningu. Það er ekki tjáningarfrelsi í hefðbundnum skilningi heldur beinlínis það að það fólk býr við kvótakerfi tjáningarinnar, þ.e. þegar sjóðurinn er búinn getur þetta fólk hvorki tjáð sig né notið félagslegra samskipta í samfélaginu. Þetta er í raun erfiðari og flóknari staða en við flest sem hér erum getum gert okkur í hugarlund, en við samþykktum með öllum greiddum atkvæðum lög nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, þar sem kemur fram að ríki og sveitarfélög skuli tryggja að allir sem þess þurfa eigi kost á þjónustu á íslensku táknmáli.

Nú liggur fyrir í lögum um heilbrigðisþjónustu og menntakerfi og lögum sem lúta að dómstólum að heyrnarlausir búa við túlkaþjónustu í þessum geirum samfélagsins. Það sem út af stendur er það sem kallað er túlkun í daglegu lífi. Þar erum við að tala um atvinnuviðtöl, húsfundi, brúðkaupsveislur, ættarmót, fasteignakaup, bankaviðtöl o.s.frv. Samkvæmt dönskum lögum um túlkaþjónustu fyrir heyrnarlaust og heyrnarskert fólk eiga þeir aðilar sem rétt eiga á slíkri þjónustu ávallt völ á henni með þeim rökum að ella geti þeir ekki tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra borgara. Þetta er mjög skýrt í dönsku lögunum og danska félagsmálaráðuneytið sendi nýlega frá sér tilkynningu þar sem taldar eru upp allar þær aðstæður í lífi og starfi táknmálstalandi fólks þar sem túlkaþjónusta skal ávallt vera til reiðu fyrir þetta fólk. Þetta er óhjákvæmileg lagabreyting á Íslandi í kjölfarið á lögunum frá 2011 og ég boða hér að ég muni leggja fram, vonandi með þverpólitískri aðkomu, (Forseti hringir.) frumvarp til laga á komandi hausti sem verði í þessum anda svo við hverfum frá þeirri stöðu að ár eftir ár búi heyrnarlausir við það að þurfa að þola skert tjáningarfrelsi mánuðum saman ár hvert.