144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt að lýsa sérstakri ánægju með að kjarasamningar hafi náðst við hjúkrunarfræðinga og vonandi er að fleiri hópar fylgi á eftir, þeir sem ekki hafa gengið frá sínum samningum. Vonandi er þetta upphafið að áframhaldandi stöðugleika á Íslandi þó að vissulega sé djarft farið. Þó er rétt að hafa áhyggjur af fréttum um að ýmsir birgjar eru að hækka vöru núna, jafnvel rétt áður en að kjarasamningar eru samþykktir.

Vaxtahækkun Seðlabankans í síðustu viku hjálpar ekki til við þetta nema síður sé. Hún á örugglega sinn stóra þátt í því að menn hrökklast í að hækka verð, en Neytendasamtökin birta þær verðhækkanir á heimasíðu sinni og öllum neytendum er vert að fara inn á þá síðu, ns.is, vegna þess að þar er listi yfir birgja sem hækkað hafa verð undanfarandi. Ég ætla ekki að lesa þessa birgja upp að sinni en hvet menn til að fara þarna inn og gaumgæfa þetta vegna þess að þarna er um að ræða hækkanir á bilinu 2,5% upp í allt að 14%.

Það er rétt að hafa í huga í þessu samhengi að síðustu 12 mánuðina hefur gengi íslensku krónunnar styrkst um 3% gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum. Þá á ég við evru og Norðurlandamyntirnar. Amerískur dollar hefur að vísu hækkað en einungis lítill hluti af vörum sem hingað eru fluttar kemur frá Ameríku og það er í sjálfu sér engin afsökun fyrir menn að byrja að hækka vörur áður en pappírinn er orðinn þurr af blekinu á kjarasamningunum. (Forseti hringir.) Ég hvet menn til að sýna hófsemi og stillingu í þessum efnum.