144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera svolítið sérstakur tónn í hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, ég held að við hljótum að fagna því að samningar hafi náðst og vonandi næst niðurstaða í það. (Gripið fram í.) Ég heyri að reyndum þingmönnum stjórnarandstöðunnar finnst óþægilegt hvernig yngri (Gripið fram í.) þingmenn tala því að það er auðvitað ábyrgðarlaust að tala með þessum hætti, sérstaklega í ljósi þess að allir vita sem vilja vita að þessi ríkisstjórn hefur forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og hefur ekki fengið stuðning frá hv. stjórnarandstöðu til þess. Við getum alveg farið í gegnum allar tölur, allar ræður, alla vinnu í til dæmis hv. fjárlaganefnd til að skoða það. Tölurnar tala sínu máli, þær liggja alveg fyrir.

Ég ætla að ræða annað, það að (Gripið fram í.) ég spurðist hér fyrir eins og ég hef oft gert um ákveðna þætti sem snúa að fjármálamarkaðnum, að bönkunum. Almenna reglan er sú að maður hefur fengið svör, bæði þegar maður hefur beðið viðkomandi stofnanir að koma fyrir þá nefnd sem á að hafa eftirlit með þessu og sömuleiðis þegar maður hefur komið með skriflegar fyrirspurnir. Fyrir tveimur mánuðum lagði ég hins vegar fram skriflega fyrirspurn, fékk svör við henni sem voru ýmist út og suður eða hreinlega sagt berum orðum að þetta kæmi hv. Alþingi ekki við. Nú erum við að tala um hagsmuni sem eru nokkur hundruð milljarðar og sagt var: Hv. Alþingi kemur þetta ekki við.

Það er mjög athyglisvert ef við erum komin á þann stað að bankastofnanir nálgist Alþingi og þar af leiðandi almenning með þessum hætti. Ég er ánægður að sjá að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur beðið um fund í efnahags- og viðskiptanefnd til að ræða þetta en ég vil sömuleiðis mælast til þess og hvetja hæstv. forseta til að skoða þessi mál. Það er stórmál ef þessar kerfislega mikilvægu (Forseti hringir.) stofnanir sem eru með einum eða öðrum hætti á ábyrgð skattgreiðenda, því miður, komast upp með það að svara ekki fyrirspurnum hv. þingmanna.