144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hæstv. forseti veit ekki alveg hvernig hann getur stutt við það að tryggja betra upplýsingaflæði, m.a. frá ráðherrum. Hæstv. forseti getur aðstoðað. Píratar hafa lagt fram lagafrumvarp um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Það er mjög eðlileg og hófleg krafa í þessu frumvarpi, bara sú að í lögum um ráðherraábyrgð sé ráðherrum gert skylt að virða að um brot á upplýsingaskyldu ráðherra samkvæmt 1. gr. varði lög um ráðherraábyrgð annars vegar og að hins vegar sé bætt inn í lög um ráðherraábyrgð að ráðherra megi ekki, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, gefa Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum í máli sem Alþingi hefur til meðferðar og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á því. Þetta er nokkuð sem forseti þingsins getur gert, hann getur sett þetta mál á dagskrá. Þá getum við fengið það inn í nefnd og strax í umsagnarferli, það mundi strax ýta af stað þessu máli til að fá betri upplýsingar frá ráðherrum.

Varðandi sannleikann er það þannig í vestrænum lýðræðisríkjum að ef við ætlum að fá að stíga í stól í dómsal sem vitni, það á við í flestum lýðræðisríkjum, verðum við að sverja eið þess efnis að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann. Það er nefnilega ástæða fyrir því að þetta er sett inn. Maður er ekki tekinn gildur sem vitni í dómsmáli nema maður segi allan sannleikann. Það er hægt að segja hálfan sannleika og villa í rauninni um fyrir mönnum með hálfum sannleika. Þegar talað er um að hjúkrunarfræðingar krefjist 20% launahækkunar er það ekki allur sannleikurinn, krafan nær yfir langt tímabil, mörg ár, sem þýðir að árlega hækkunin er miklu minni. Það er ekki verið að segja allan sannleikann og það er ekki skýr mynd sem fólk fær af kröfunni. (Forseti hringir.) En forseti getur aðstoðað við það að sannleiksskylda ráðherra verði skýrari.