144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Kvennahreyfing Samfylkingarinnar hélt í gær málþing um áhrif löggjafar af banni við kaupum á vændi á Íslandi, í Noregi og í Svíþjóð. Málþingið var stutt af sósíaldemókrötum í Norðurlandaráði og Friedrich-Ebert-Stiftung með þátttöku íslenskra, norskra, sænskra, finnskra og þýskra þingmanna.

Ég hélt erindi um áhrifin á Íslandi og niðurstaðan er sláandi. Við gerum ekki nándar nærri nóg til að framfylgja löggjöfinni. Það sýnir sig þegar málið er skoðað að þegar lögreglan veitir þessum málaflokki sérstaka athygli kemur ýmislegt upp úr dúrnum, eins og að árið 2013 komu 167 mál um ólögleg kaup á vændi til kasta lögreglu miðað við 12–13 mál árið á undan og árið á eftir. Rannsóknarheimildir lögreglu virðast ónógar og réttarhöld vegna brota á þessum lögum eru lokuð. Þrátt fyrir að ríkissksóknari, lögregla og kvenkyns dómarar vilji að réttarhöldin séu opin þurfa þau að lúta í lægra haldi fyrir meiri hluta niðurstöðu karlkyns dómara í Hæstarétti.

Ég mun núna leggja fram til skriflegs svars fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra og spyrja hvort lagabreytingar þurfi til að tryggja opin réttarhöld í þessum málum og hvort til standi að auka rannsóknarheimildir miðað við refsiramma brotanna.

Ég vænti jákvæðra viðbragða frá hæstv. ráðherra Ólöfu Nordal, enda tel ég að við hér á landi séum öll sammála um að við viljum ekki að hér sé hægt að kaupa sér völd yfir annarri manneskju.