144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég vil reyna að bregðast við spurningum hennar og byrja þá á fyrri spurningunni um hvar rétt sé að vista verkefnið. Ég tók það einmitt fram í framsögu minni að ég tel að við getum lært af því hvar við eigum að vista þessi verkefni, þannig að ábyrgðin sé skýr og undirbúningurinn skilvirkur. Ég held að það hafi alla vega komið í ljós að það gengur ekki með þeim hætti sem við höfum upplifað að þessu sinni.

Ég tíundaði ekki í framsögunni það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu frá hv. atvinnuveganefnd, að mikilvægt sé að það viðbótarfé sem þarf til þess verkefnis verði ekki tekið af fjármunum sem renna til almennra samgönguframkvæmda um landið. Þetta vill nefndin taka sérstaklega fram. Það sem er kannski vandinn við að vista þetta hjá innanríkisráðuneytinu er að þá seilast menn í pott samgönguáætlunar til þess að standa að svona innviðaverkefnum, þess vegna verður að ganga frá því stjórnskipulega á mjög skýran hátt. Ég er sammála þingmanninum um að skýra þarf ábyrgðarhlutverkið og vistunina miklu betur í þessu.

Seinni spurningin er hvort ásættanlegt sé að verkið fari jafn hressilega fram úr áætlunum og raun ber vitni. Það er engan veginn ásættanlegt að þurfa að kyngja því að við stöndum núna frammi fyrir þessum gríðarlega aukakostnaði. Það hefur einfaldlega komið fram í vinnu nefndanna sem ég vísaði til áðan, bæði hv. atvinnuveganefndar og fjárlaganefndar, að greiningin á bak við lagasetninguna var algjörlega ófullnægjandi þar sem menn notuðu, ég vil leyfa mér að segja, herra forseti, einhverja viðmiðunarverðlista yfir metraverð í gangagerð án þess að rannsaka það til hlítar, þó að þeir hafi vitað að göngin væru á þessum stað með breiðara sniði o.s.frv.