144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði nú bara að koma hingað upp í mínu blátærasta sakleysi og taka undir fögnuð hv. þingmanns yfir því að loksins væri þessi framkvæmd að fara af stað. Hins vegar blöskraði mér svo undir ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að ég get ekki annað en vikið að henni í ræðum mínum á eftir. Að leyfa sér að koma hingað upp með þeim munnsöfnuði sem hv. þingmaður viðhafði, hæddi og smáði grísku þjóðina í hennar alvarlegu hremmingum núna, talaði í reynd gegn þessum framkvæmdum á Bakka og virðist vera komin í lið með þeim sem vilja vinna gegn framkvæmdum á landsbyggðinni, og löðrunginn sem hún rétti hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fjarstöddum skal ég glaður taka á mína kinn og rétta fram hina líka.

Eitthvað er þetta, herra forseti, í andstöðu við þær messur sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa talað hér um síðustu daga um kurteisi, um að vera prúð í framkomu. Hv. þingmaður leyfir sér að koma hingað og ausa svívirðingum yfir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og boðar síðan aðra ræðu í svipuðum anda að honum fjarstöddum. Ja, það er drengilegt. Hvað mundi hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir eða hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir segja um þessa framkomu hv. þingmanns? Hún á að koma hingað og sjá sóma sinn í því hér á eftir og biðja Grikki afsökunar á þeim digurmælum sem hún lét falla í þeirra garð.

Herra forseti. Að því slepptu vil ég aðeins taka undir þau orð sem hv. þm. Haraldur Benediktsson lét falla hér áðan. Ég fagna þessari framkvæmd og að hún er komin af stað. Ég tek algjörlega undir með honum að hér eru auðvitað ákveðnar spurningar sem þarf að svara. Ég vil líka segja það, bara til að það liggi skýrt fyrir, þó að ég þekki þetta mál ekki út í hörgul, að ég hefði talið fullkomlega eðlilegt að það yrði vistað innan innanríkisráðuneytisins eins og hv. þingmaður sagði. En mig langar til að spyrja hv. þingmann, og það var annað erindi mitt hingað: Með hvaða hætti á að tryggja það að viðbótarféð sem þarf í þetta verði ekki tekið af (Forseti hringir.) því nauma fé sem er skammtað til samgönguframkvæmda á komandi ári?