144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að svara þessu andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég kýs þó að bregðast við því sem hann beindi til mín undir lok andsvars síns, hvernig við ætlum að tryggja það að féð verði ekki tekið af almennu vegafé. Fram hefur komið í máli hæstv. innanríkisráðherra að hún er sammála meiri hluta atvinnuveganefndar um að ganga þurfi þannig frá málum að það verði ekki klipið af þeim takmörkuðu fjármunum sem við höfum til framkvæmda í vegagerð á Íslandi. Við verðum að ganga frá því með þeim hætti að sú fjárveiting verði sérmerkt og komi þá ekki til lækkunar á þeim fjármunum sem fara til vegagerðar.

Ég skal fúslega játa það, herra forseti, að ég hefði frekar viljað sjá þessa milljarða, sem við þurfum nú að leggja aukalega til þessa verkefnis, fara í að byggja upp tengivegi í okkar víðfeðmu héruðum, sem við mörg hver búum við það að þurfa daglega að aka malarvegi til og úr vinnu og keyra skólabörn í skóla o.s.frv. En hitt vildi ég líka láta koma fram, og held þá áfram með þann þráð sem ég hef spunnið hér í framsögu og andsvörum, að það er hryggjarstykki að takast vel í að snúa við byggðaþróun, þ.e. að geta ráðist í slíkar stórframkvæmdir sem þarna eru. Við þurfum á því að halda, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að vinna markvisst í þeim málum, og okkur líkar það vel. Ég get játað það að mér líkar það vel að sjá í augsýn fleiri stórar framkvæmdir á sviði nýtingar á okkar orku, og við ættum að geta sameinast um að ryðja brautina þannig að greiðlega gangi fyrir uppbyggingu á þeim sviðum, hvort sem það er á Bakka eða víðar um landið. En þar eru aðrir tappar sem við erum ekki ræða í þessari umræðu.