144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skulda hv. þm. Haraldi Benediktssyni líklega afsökunarbeiðni vegna þess að það er alveg hárrétt hjá honum að andsvar sem ég veitti honum áðan var harla óvanalegt, en hins vegar sit ég bara ekkert undir því þegar hv. þingmenn koma hér, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, og ausa svívirðingum yfir fjarstaddan þingmann með þeim hætti sem hún gerði fyrir utan annað.

En svar hv. þingmanns var drengilegt í báðum tilvikum, og ég skil það alveg að hann undri það með hvaða hætti sá kostnaður við þessa framkvæmd hefur farið fram úr áætlunum. Þó rifja ég það upp að hér kom fram, annaðhvort í andsvari hans áðan eða í framsögu, að vegarstæðinu hefur verið breytt, línustæðinu hefur verið breytt. Kannski stafar það líka af fyrirhyggjuleysi, ég veit ekki um það, en vafalítið hefur það haft töluverðan kostnað í för með sér.

Hitt liggur alveg ljóst fyrir að hér er að fara af stað merkilegt verkefni sem grunnurinn var lagður að í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er hárrétt sem fram hefur komið að ákveðnar ívilnanir þufti til að ganga frá því verki, en menn réðust í það með svipuðum hætti og við höfum öll hér verið að sameinast um eða eigum það að minnsta kosti eftir, að samþykkja lög um ívilnanir, sem meðal annars og kannski eingöngu ganga út á það að reyna að fá erlend fyrirtæki til að fjárfesta á stöðum, einkum á landsbyggðinni. Ég segi það fyrir mig, Reykjavíkurmús sem ég er, að ég bara styð það fullkomlega. Ég tel að eyða eigi fjármagni til þess að reyna að treysta rætur byggðar í landinu, segi það sem maður sem fæddur og uppalinn er og býr í Reykjavík 101. Það er vel þess virði, það skiptir máli og hefur hagræði og auðlegð í för með sér að halda landinu í byggð.