144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt að hv. þingmaður hafi lesið þetta í bók sem hann fór hér með. Ef hann á við Ár drekans þá urðu þeir atburðir sem hv. þingmaður vísaði til einmitt ekki til neins konar samninga um Evrópusambandið. Ef hann les hins vegar þann kafla mjög vel þá sér hann að það varð til bjargar ríkisstjórn. Hins vegar getur höfundur þess með nokkurri beiskju að hann hefði gjarnan viljað sjá það liðka til fyrir framvindu ESB-ferlis en varð ekki að þeirri ósk sinni. Það er hinn rangi lestur.

Að öðru leyti, frú forseti, þá er mér nú ekki gjarnt að koma hér upp og lýsa eigin ágæti, en það er rétt við þessar aðstæður, þegar við erum með ríkisstjórn sem hefur missirum saman lítið gert annað en ausa úr skálum reiði sinnar yfir fyrri ríkisstjórn, að rifja það upp af þessu tilefni hverjir lögðu grunninn að þessu. Þá er rétt að ég undirstriki það sem hv. þingmaður gerir stundum en er mjög sjaldgæft að t.d. forusta ríkisstjórnarinnar geri, að ég sagði áðan að það væru þrjár ef ekki fjórar ríkisstjórnir sem hefðu unnið frá hruni og allar vel, allar lagt sig fram en allar gert mistök, líka þessi, en allar unnið af einlægum vilja. Það breytir ekki því að grunnurinn að því verkefni sem við erum að tala um hér var lagður, orkuöflun og verkefnið sjálft, í tíð síðustu ríkisstjórnar. Grunnurinn að þeim fjórum stórverkefnum sem eru í gangi var allur lagður af öðrum ríkisstjórnum. Það er ekkert nýtt verkefni sem ég þekki sem er komið á teikniborðið eða á hugmyndastigi, ef frá er talin ein verksmiðja, verksmiðjuhugmynd, sem var reyndar flutt frá Húsavík yfir í kjördæmi hv. þingmanns mjög nýlega og góðra gjalda verð, lítið álver, sem hefur orðið til í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er málið. Ég er ekki að segja að það sé áhyggjuefni.

Ég gleymdi mér í hita leiksins (Forseti hringir.) en ég hef svar við hinni málefnalegu spurningu hv. þingmanns og kem að því hér á eftir.