144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á margan hátt deilum við skoðunum á stóriðjuuppbyggingu. Það hefur komið fram í ræðu hv. þingmanns í því máli sem við erum að fjalla um, stóriðjuuppbyggingu og undirbúning innviða á iðnaðarlóðinni á Bakka. Hann hnýtti reyndar við lok síns svar hér áðan að hann hefði ekki svarað þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann og hann ætlaði að koma hingað upp aftur og klára það. Þá vil ég bæta við þann spurningalista og spyrja beint hvort hann hafi áhyggjur af því að við höfum ekki komið fleiri vatnsaflsnýtingarkostum — ég segi bara hvað ég er að meina — eins og neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk þannig að við getum haft fyrirsjáanleika í því að afla meiri orku, ekki aðeins til þess að laða að meiri stóriðju, ekki til þess að selja hana á lágu verði nema síður sé, en um það erum við, trúi ég, líka sammála að við eigum að fá gott verð fyrir rafmagn og það erum við að gera. Það er þess vegna sem forsvarsmenn Landsvirkjunar tala núna með þeim hætti sem þeir gera á aðalfundi sínum og vísa til þess að hún muni í framtíðinni skila góðum arði.

Við ræðum það ekki nú en ég hef líka ákveðnar athugasemdir við framgöngu forsvarsmanna Landsvirkjunar í þeim efnum og sýn þeirra á því, við getum rætt það síðar.

Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því stóra stoppi sem nú er komið og fyrirsjáanleika um byggingu vatnaflsvirkjana, m.a. í neðri hluta Þjórsár? Ég trúi að hann sé mögulega í minni hluta í sínum flokki að berjast fyrir því sjónarmiði að þar megi halda áfram virkjunum. Fáa þekki ég aðra en hv. þm. Össur Skarphéðinsson til þess að fara af þekkingu með þau rök sem þar hafa helst verið færð fram, þ.e. hin svokölluðu laxarök, sem eru nú helsti þröskuldur þess að við komum þeim virkjunarkostum í nýtingarflokk.