144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar er svolítið einkennandi fyrir það ástand sem hefur verið í þinginu eftir áramót, það er talað um mál í dagskrárliðum sem málin eiga ekki heima í, samanber það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór í andsvar um þá sem hér stendur við hv. þm. Harald Benediktsson. Þetta er alveg hreint með ólíkindum en það virðist ekki vera hægt að grípa inn í þetta af forseta af því að það virðist vera orðið þannig að alveg sama sé hvaða liður er á dagskrá, hann er misnotaður á einhvern hátt af stjórnarandstöðunni, því miður. Ég ætla ekki að fara yfir þau orð sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafði yfir, enda væri afar skrýtið að byrja málefnalega ræðu og leggja til lagabætur á því að fara í andsvör við hv. þingmann. Ég ber virðingu fyrir þeim dagskrárliðum sem eru settir á dagskrá þingsins á hinu háa Alþingi og ætla því að vinda mér efnislega í þá ræðu sem ég ætla að flytja í þessu máli.

Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2013, um heimild til handa ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, með síðari breytingum (fjárheimild). Þetta frumvarp er lagt fram af meiri hluta atvinnuveganefndar, eins og kemur hér fram, og hef ég athugasemdir við það.

Í upphafi ætla ég að segja að Framsóknarflokkurinn er mikill atvinnuflokkur og styður alla atvinnuuppbyggingu, hvar sem er á landinu. Ég kom hvergi að því í andsvari mínu áðan við hv. þm. Harald Benediktsson að ég væri á móti þeirri uppbyggingu og vil ég að það komi skýrt fram. Ég fagna allri atvinnuuppbyggingu, sama hvar á landinu hún er, en sérstaklega fagna ég því að byggð sé upp og sköpuð atvinna á landsbyggðinni, þannig að það sé sagt og því hér með komið á framfæri. Ég geri athugasemd við þetta frumvarp sem að mínu mati er ekki nægilega vel unnið til að það haldi. Þeir þingmenn sem hafa fylgst með störfum mínum á Alþingi vita að ég tala mjög fyrir lagabótum, hef gengið svo langt í því að leggja fram sex sinnum á sex þingum frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis svo að lagasetningin hér verði til góðs, til að lagasetning haldi fyrir dómstólum og ekki síst til þess að fækka dómsmálum með bættri lagasetningu.

Í upphafi ætla ég að endurtaka það sem ég fór yfir í andsvari við hv. þm. Harald Benediktsson, að það sé beinlínis rangt sem kemur fram í greinargerð að ekki sé hefð fyrir því að tilgreina sérstaka fjárhæð í lagaheimildum. Í fjárlögum hvers árs undir liðnum Lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir, sem snýr að 5. gr., er alltaf talað um að taka lán allt að ákveðinni fjárhæð. Það er ekkert mál að breyta þessu því að þetta er 1. umr. og framsögumaður málsins situr í þingsal, hv. þm. Haraldur Benediktsson, og ég veit vel að hann er allur af vilja gerður að bæta lagasetningu. Þá er hægt að fara yfir þessa punkta mína og leggja þá inn í nefndarálitið sem verður til fyrir 2. umr. með breytingartillögum.

Þetta vakti líka athygli hv. fjárlaganefndar sem hefur haldið fund út af þessu máli, út af gríðarlegri hækkun á þessu verkefni, úr 1.800 milljónum í 3.200 milljónir. Þetta er hækkun upp á 70% sem sýnir að vanda verður betur til verkefna af þessu tagi þegar þau eru sett af stað, að þau séu þá reiknuð til fulls. Það er allt of mikið um það að hér sé farin hin svokallaða gríska leið, að komið sé inn í þingið verkefnum sem standast ekki kostnaðarmat og algjörlega fyrir utan fjárlög. Svo situr ríkissjóður uppi með vanáætlunina. Og hverjir eru ríkissjóður, virðulegi forseti? Það eru skattgreiðendur. Ég tek hlutverk mitt sem formaður fjárlaganefndar mjög alvarlega og mér ber beinlínis samkvæmt þingsköpum að gera athugasemdir við svona mál. Þannig er nú það, virðulegi forseti.

Það sem kom fram á fundi fjárlaganefndar þegar Vegagerðin kom fyrir nefndina og atvinnuvegaráðuneytið þegar farið var að krefja þá svara um það hvers vegna í ósköpunum þessu verkefni var árið 2012 valinn staður í atvinnuvegaráðuneytinu — hvers vegna í ósköpunum var sú leið farin? Þá var hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra núverandi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Hvers vegna var ekki farið með þetta verkefni þá leið sem öll önnur verkefni af þessari stærðargráðu og sama eðlis fara, þ.e. að hýsa verkefnið, þar sem um jarðgöng er að ræða, að vísu bara sem á að nota undir þungaflutninga en jarðgöng samt, í innanríkisráðuneytinu og að fjármálaráðherra fari með lánsfjárhliðina? Ég geri það að tillögu minni að hv. þm. Haraldur Benediktsson, sem framsögumaður málsins, skoði þetta þegar frumvarpið fer aftur í hv. atvinnuveganefnd, að þá verði sú breyting gerð, úr því að er verið að gera betrumbætur á þessum lögum, að farið verði inn á þennan hátt og ákvæðunum breytt. Ég get alveg tekið undir það, þetta er áætlun um að verkefnið hækki um 70%. Ég trúi því að það sé þverpólitískur vilji til þess í þinginu að ríkissjóður inni þá fjárhæð af hendi og það verði þá á einhvern hátt tryggt að féð fari ekki út af samgönguáætlun, ef hún kemst til umræðu eða í gegnum þingið, hér er allt fast. Svo er það líka að ramminn hefur komið til umræðu og hann er náttúrlega fastur og það er búið að gefa eitthvað eftir í honum. Það þýðir ekki að vera eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson í kosningabaráttunni fyrir árið 2009, að samþykkja hér og vera fylgjandi álverum á Bakka og í Helguvík og stoppa svo rammaáætlun þegar vantar orku. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir í því máli. Ef þingmenn eru almennt samþykkir því að byggja upp atvinnu hringinn í kringum landið verða þeir jafnframt að vera samþykkir því að tiltæk sé næg orka. Ég bið um samkvæmni í því máli sem öðrum.

Ég legg til að þetta verkefni verði hýst í innanríkisráðuneytinu á þeim grunni sem ég fór yfir áðan, á þeim grunni sem kom fram í fjárlaganefnd frá fulltrúum Vegagerðarinnar sem voru beinlínis á því að þetta verkefni væri í einskismannslandi, það bæri enginn ábyrgð á því vegna þess að atvinnuvegaráðuneytið á hvorki að gefa ívilnanir um það að veita fjárheimildir né það að hýsa jarðgöng. Þetta mjög eðlileg krafa, að farið sé með öll samsíða verkefni, sem eru svipuð og einsleit, á sama hátt í lögum og framkvæmd, líka til þess að hæstv. fjármálaráðherra hafi yfirsýn yfir þau verkefni sem heyra undir ráðuneyti hans, því að auðvitað er þetta gríðarleg hækkun, 70% hækkun frá því að lögin voru samþykkt 2012 þar til þetta kemur fram núna, að þetta sé forsenda fyrir því að hægt sé að fullnusta samninginn á Bakka til þess að atvinnustarfsemi geti farið þarna af stað, að ríkið þurfi að koma inn með þessa fjárhæð.

Ég ætla að lokum að fara yfir það þegar þessi lög voru samþykkt árið 2012, þá er að finna í greinargerð með frumvarpinu kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Eins og áður segir er í frumvarpinu gert ráð fyrir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra verði veitt heimild til að semja annars vegar við Vegagerðina um gerð vegtengingar við iðnaðarsvæðið á Bakka og hins vegar við hafnarsjóð Húsavíkurhafnar um fjárframlag ríkisins í formi víkjandi láns. Í þessu sambandi vakna álitaefni þar sem uppbygging og rekstur samgönguinnviða heyrir undir verksvið innanríkisráðherra og lánsfjármál ríkissjóðs eru á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Vandséð er að sú fyrirætlan frumvarpsins að annar ráðherra en fjármála- og efnahagsráðherra veiti lán úr ríkissjóði samrýmist forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Þá vekur þetta fyrirkomulag upp spurningar um hvernig framkvæmd fjárheimilda og lánsfjárheimilda í þessu skyni verði háttað í fjárlögum. Samkvæmt 26. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, skal leitað heimilda til lánveitinga í fjárlögum. Eðli málsins samkvæmt eru í lánsfjárgrein árlegra fjárlaga, 5. gr., einvörðungu veittar heimildir til lánveitinga til handa fjármála- og efnahagsráðherra en ekki annarra ráðherra. Auk þess telur ráðuneytið horfur á að fara verði með umrætt víkjandi lán sem ríkisstyrk í reikningshaldi ríkisins og fjárlögum. Einnig vaknar sú spurning hvort fjárveiting ríkissjóðs til vegaframkvæmdanna ætti að renna til Vegagerðarinnar, sem heyrir undir innanríkisráðuneytið, eða til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem taki þar með ábyrgð á framkvæmdunum og þeim skuldbindandi samningum sem gera þarf vegna þeirra.“

Þetta var lesið upp úr kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins frá árinu 2012. Þarna er alveg skýrt kveðið á um það hvert álit fjármálaráðuneytisins er í þessu máli. Það var ekki tekið tillit til þeirra athugasemda á sínum tíma og þess vegna tel ég tímabært, úr því að það þarf að gera lagabætur á þessum lögum, að minni hlutinn í þinginu styrki meiri hlutann í því að gera nauðsynlegar lagabætur á lögunum til að bjarga því sem bjargað verður af því sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar varðandi lagaumgjörðina um Bakka. Ég er ekki að gagnrýna verkefnið, ég er fylgjandi því, en við verðum að koma þessu í fast form og fara með þetta verkefni eins og önnur verkefni sem við erum að skapa og byggja upp atvinnu á landinu og eru mjög sambærileg þessu verkefni.

Þetta ætlaði ég að segja og hef að segja í þessu máli, einungis lagatæknileg atriði. Eins og ég sagði í upphafi ræðu ber ég virðingu fyrir dagskrárliðum þingsins og nota þá einungis til þess að koma efnislegum og tæknilegum sjónarmiðum á framfæri en nota ræðutíma minn ekki til þess að svara dylgjum og skítkasti í minn garð sem kom fram í andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar við annan þingmann. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vissi vel áður en hann fór (Gripið fram í.) í andsvör við hv. þm. Harald Benediktsson að ég var búin að skrá mig í ræðu.

Ég óska eftir því og vonast til þess að hann komi í andsvör við mig eftir að ég lýk máli mínu því að það er vettvangurinn, virðulegi forseti, samkvæmt þingsköpum.