144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir andsvarið.

Við vitum hvernig þetta mál bar að, það bar brátt að, þetta var í ákveðnu kjördæmi hjá ákveðnum þingmanni sem ég má ekki nefna. En það er alveg skýrt, og það kemur fram í forsögu í greinargerð með frumvarpinu, að unnið hefur verið að því síðan 1980 að koma með orkufrekan iðnað á þetta svæði, og það er mjög gleðilegt að verkefnið skuli vera komið hér til framkvæmda.

Það kom fram hjá Vegagerðinni að þetta hefði borið mjög brátt að og þessi upphæð hafi raunverulega kannski verið mjög óábyrg, ef maður getur sagt það, á sínum tíma, því að eins og komið hefur í ljós vantar núna 70% aukningu inn í verkefnið. Það var einfaldlega, tel ég, farin sú leið að miða við það að kílómetrinn í jarðgangagerð fyrir bílaumferð var áætlaður 1,2 milljarðar, þannig að ég held að það hafi nú bara verið hraðreikningur einhvers staðar í einhverju ráðuneyti á sínum tíma þegar þessi tala var fundin út, að taka það viðmið. En svo kemur í ljós að þarna vantaði rannsóknafé inn og líka það að göngin þurfa að vera styrkari en venjuleg jarðgöng af því að þar eiga að fara fram þungaflutningar.

Þetta sannar því enn einu sinni fyrir okkur að vanda þurfi lagasetningu, ég hef talað fyrir því, þannig að þingið sé ekki alltaf að spóla með sömu frumvörpin og sömu lögin ár eftir ár í lagabótum og kemst þar af leiðandi mjög hægt yfir í þeim þjóðþrifamálum sem við þurfum að sinna. En það er ákvæði um þessar 1.800 milljónir í 1. gr. frumvarpsins og útskýringar við 1. gr. eru hér á einum sjö blaðsíðum, þannig að það var (Forseti hringir.) nú nóg skrifað á sínum tíma um þær 1.800 milljónir.