144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var alltaf ætlunin með lagasetningunni 2013 og þessum ívilnunarsamningi, en þetta var sett undir atvinnuvegaráðuneytið til að skýra það alveg klárt að féð ætti ekki að koma af hefðbundinni samgönguáætlun, eins og við sem flytjum þessa tillögu áréttum í greinargerð með henni núna.

Hv. þingmaður ræðir um að núna á síðustu metrunum séu þessar upplýsingar að koma fram eftir frekari rannsóknir og frekari hönnun. Má ég aðeins vekja athygli á því, virðulegi forseti, að atvinnuvegaráðuneytið árið 2013 veitti Vegagerðinni aðeins 15 milljónir til að hefja rannsóknir? Þær 15 milljónir duga ekki fyrir slíkum rannsóknum þannig að Vegagerðin hefur staðið sig vel hvað það varðar fyrir takmarkað fé. Hún talar líka um að þetta sé að koma inn á síðustu stundu. Nú vil ég að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir taki vel eftir. Á fundi nefndarinnar kom fram að Vegagerðin hafði sent gögn, ný gögn um kostnaðarmat til innanríkisráðuneytisins í apríl 2014. Í fyrra. Það fór til innanríkisráðuneytisins og lá þar. Hins vegar á einhverjum tímapunkti, ég man ekki alveg hver dagsetningin var en get flett því upp, þá óskaði forsætisráðuneytið með milligöngu aðstoðarmanns hæstv. forsætisráðherra, eins af aðstoðarmönnum hans, eftir þessum upplýsingum. Þær voru sendar frá innanríkisráðuneytinu til forsætisráðuneytisins fyrir meira en ári síðan, en ekkert var gert með þær. Þess vegna koma þær upplýsingar fram núna í þessu þingmáli sem nauðsynlegt er að flytja vegna þessarar brýnu og góðu framkvæmdar sem þarna er að hefjast.

Hvað segir hv. þingmaður, sem vill hafa kláran lagagrunn og hlutina alla rétta, um það að í forsætisráðuneytinu hefur þessi vitneskja legið í heilt ár en ekkert gert með hana?