144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:10]
Horfa

Eldar Ástþórsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er fyrst og fremst að gagnrýna vinnubrögðin og þegar verið er að ræða þau. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að framkvæmdirnar eru farnar af stað og þegar er búið að samþykkja 1,8 milljarða. Nú er talan einfaldlega tekin út í núverandi frumvarpi en við vitum að þetta kostar 3,4 milljarða.

Ég sakna þess í núverandi frumvarpi að einhverjir fyrirvarar séu á því að upphæðin hækki ekki enn meira, því að þá getum við átt nákvæmlega sömu samræður á næsta ári þar sem verður sagt — ef ég er að gagnrýna þessi vinnubrögð, þá verður sagt: Já, en nú er þetta allt komið af stað, við þurfum auðvitað að halda áfram. Jú, jú, vissulega, við hættum ekki við hálfklárað verk, bökkum ekki með Bakka, og það er ekki það sem ég er að leggja til.

Ég er að gagnrýna þessi vinnubrögð. Ég mun að sjálfsögðu ekki standa gegn frumvarpinu, en ég stend ekki að því og mun að öllum líkindum ekki greiða atkvæði með því, en ég geri mér grein fyrir að þetta þarf að fara í gegn og mun að öllum líkindum skila auðu í þessu tiltekna máli. En ég er fyrst og fremst, og legg áherslu á það, að gagnrýna þessi vinnubrögð og ég sakna þess í frumvarpinu að upphæðin sé einfaldlega tekin út og engir fyrirvarar, og mér finnst við ekki vera að læra af reynslunni. Þegar verið er að höndla með opinbert fé og upphæðir sem þessar finnst mér það bara alls ekki nógu góð vinnubrögð. Ég er bæði að gagnrýna fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn, svo það sé skjalfest sömuleiðis og kom fram í ræðu minni.