144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:14]
Horfa

Eldar Ástþórsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vill skipta þessu mjög nákvæmlega upp, að fyrri ríkisstjórn hafi verið arfaslæm í þessu og núverandi ríkisstjórn sé að halda gríðarlega vel á þessu máli. Ég vil halda því til haga að þingmenn Bjartrar framtíðar gagnrýndu vinnulagið á sínum tíma á þessu máli og hvernig það kom inn í þingið, að það gafst ekki nægur tími til að vinna málið og undirbúningur þess var alls ekki nægur. Og það er nokkuð sem ég bendi á hér að mér finnst núverandi frumvarp alls ekki tryggja að — mér finnst þetta í raun vera áframhald á þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð í þessu máli, að verið er að setja meira fé frá ríkinu í þessa framkvæmd. Það eru engir fyrirvarar um að þessi upphæð geti ekki hækkað síðar meir. Upphæðin er bara tekin út úr frumvarpinu. Hún var 1,8 milljarðar, eins og komið hefur fram, lausnin hjá meiri hluta atvinnuveganefndar er einfaldlega sú að kippa upphæðinni út og setja 1,4 milljarða til viðbótar í verkið. Það eru þau vinnubrögð sem ég er að gagnrýna og vísa aftur til þess að þingmenn Bjartrar framtíðar bentu á þetta fyrir tveimur árum og ég bendi á þetta hér og nú, að mér finnst frumvarpið vera dæmi um mjög slæm vinnubrögð, sem ég get alls ekki stutt og er þess vegna ekki fylgjandi málinu.