144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að koma hér upp og bera blak af hv. þingmönnum Bjartrar framtíðar. Ég vildi óska að þau færu oftar eftir því sem við í Samfylkingunni segjum, það er erfitt fyrir okkur að hafa einhverja stjórn á þeim þótt við gjarnan vildum. En mér fannst hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson alveg ótrúlega dónalegur í ræðustóli áðan. Þegar menn geta ekki verið í umræðum um málin með málefnalegum hætti, efnislega, án þess að hreyta í þingmenn úti í sal, sem menn eru ekki einu sinni í umræðum við, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þá veit ég hvert við erum komin í þessum umræðum.

Þetta var ómaklegt og ég tel að þingmaðurinn ætti að sjá sóma sinn í því að biðjast velvirðingar á því. Og síðan höldum við áfram að ræða þetta mjög svo mikilvæga mál, sem nota bene Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn studdu þegar það fór hér í gegn á síðasta kjörtímabili.