144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ræðu. Ég kem úr kjördæmi þar sem engin jarðgöng eru og er á jarðskjálftasvæði, vegna þess að það kom fram áðan í ræðu þingmannsins hversu mörg jarðgöng væru í kjördæmi hennar.

Þetta eru engin venjuleg jarðgöng. Þetta eru jarðgöng vegna uppbyggingar á atvinnutækifærum. Það hefur komið fram að kostnaður fari meðal annars fram úr kostnaðarmati vegna þess að það þurfi að sérstyrkja þau, af því að þarna fara þungaflutningar um.

Það er nú vitað að í kringum Húsavík er jarðskjálftahætta og það hefur verið vitað í mörg árhundruð, þannig að það átti ekki að koma neitt á óvart í þessu verðmati á sínum tíma, svo að það sé sagt. En mig langar að spyrja þingmanninn: Er það eðlilegt í ríkisrekstri að taka fyrst ákvörðun um verkefni og framkvæmdir og fara síðan í rannsóknir? Er þetta rétt röðun á framkvæmd sem ríkisábyrgð er á?

Mig langar líka að spyrja þingmanninn út í greinargerð sem fylgdi með frumvarpi því sem varð að þessum lögum. Það kemur í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi vakna álitaefni þar sem uppbygging og rekstur samgönguinnviða heyrir undir verksvið innanríkisráðherra og lánsfjármál ríkissjóðs eru á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra.“

Hvers vegna í ósköpunum var þá farið í það að hýsa þetta verkefni undir þáverandi atvinnuvegaráðherra, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni? Er það vegna þess að þetta var í kjördæmi hans eða hvers vegna þurfti þáverandi ráðherra að vera með puttana í verkefninu í stað þess (Forseti hringir.) að setja það í þann farveg sem öll jarðgöng hafa farið í?