144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Eins og ég sagði áðan er það ekki í mínum verkahring að svara því fyrir aðra þingmenn hvers vegna hlutirnir voru vistaðir á einhverjum tilteknum stað. Ég hef ekki tekið afstöðu til þess hvort það er rétt eða rangt að svo sé gert og hvet hv. þingmann til að eiga orðastað við þann þingmann sem hún nefndi áðan. Hv. þingmaður ýjar að því að ef verkefnið hefði ekki verið vistað undir atvinnuvegaráðuneytinu og ráðherra þess á þeim tíma, ég skil hv. þingmann þannig, hefði það aldrei orðið til. Ég get ekki svarað því hvort það sé rétt.

Ég tek undir það að við getum alltaf gert betur, hvort sem það er í áætlanagerð eða öðru, og að sjálfsögðu eigum við að reyna að gera sem mestar og bestar rannsóknir áður en við höldum af stað í verkefni hverju sinni. Það er ekki alveg svo að engar rannsóknir hafi átt sér stað. Hins vegar var bent á áðan að það hefði, og nú þegar náttúrlega, mátt gera betur í því að veita rannsóknarfé og það hefur núverandi ríkisstjórn ekki gert svo neinu nemi. Það er líka ámælisvert að fyrir ári síðan er þetta vitað og við erum að fá vitneskju um það núna. Ég trúi ekki öðru en hv. þingmaður sé mér sammála um það talandi um að vilja hafa góða áætlanagerð, talandi um að vilja hafa hlutina uppi á borðinu. Hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um að við hefðum viljað getað tekið á þessu mun fyrr og brugðist við því mun fyrr, þótt það hefði væntanlega ekki breytt neinu. Við stöndum frammi fyrir þessum hlut og þurfum að takast á við þetta verkefni. Að sjálfsögðu eigum við að byrja að rannsaka sem mest en stundum getur tímafaktorinn verið slíkur að við þurfum að gefa út einhverjar yfirlýsingar. Þetta (Forseti hringir.) snýst um krónutölu, sem að mínu viti voru mistök að setja inn í frumvarpið.