144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst í mínum huga, svo ég byrji þar sem þingmaðurinn byrjaði, að atvinnuvegaráðuneytið ber ábyrgð á þessu verkefni. Hæstv. iðnaðarráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir ber ábyrgð á þessu máli. Það er algjörlega hennar og ríkisstjórnarinnar að velja hvernig þau hyggjast fara með það. Ég sagði áðan að ef ráðherrann og ríkisstjórnin hefðu viljað færa verkefnið til innanríkisráðherra eða á einhvern hátt undir fjármálaráðuneytið, eins og mér heyrðist hv. þingmaður vera að tala um, af því að yfirsýnin væri meiri ef málið væri hjá innanríkisráðherra heldur en ef það er hjá atvinnuvegaráðherra — það er algjörlega núverandi ríkisstjórnar að eiga við. (Gripið fram í.) Þú sagðir, hv. þingmaður, með leyfi forseta, sagði hv. þingmaður áðan að af því málið er í atvinnuvegaráðuneytinu beri enginn ábyrgð á því. Það er ekki svo. Atvinnuvegaráðuneytið ber ábyrgð á málinu, það er alveg á hreinu. Þetta átti aldrei að vera inni í samgönguáætlun, svo að það sé sagt, þetta átti ekki að vera partur af henni, þetta var sérstakt verkefni. Ég held að hv. þingmaður verði að fara yfir þær ræður sem voru haldnar á sínum tíma þegar þetta mál fór hér í gegn svo að hún gleymi því ekki.

Hvað varðar aðrar framkvæmdir í öðrum kjördæmum, þótt þau hafi ekki jarðgöng, af því að lífið snýst ekki einungis um jarðgöng, þá er það svo að við höfum verið tilbúin til þess að ræða rammaáætlun. Þetta snýst ekkert um það, við viljum aðeins fara eftir þeim ferlum sem þar eru undir. Þegar þeim er lokið tökum við auðvitað afstöðu til hvers máls fyrir sig, hvort sem það er virkjun eða friðun eða bið eða hvað það er sem er undir, en ekki fyrr en að því loknu. Um það snýst málið og viðhorf okkar.

(Forseti (ÓP): Forseti vill góðlátlega minna hv. þingmenn á þegar þeir vísa til annarra þingmanna að nefna þá fullu nafni.)