144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna orðum hv. þingmanns og varaformanns Samfylkingarinnar, Katrínar Júlíusdóttur, áðan þegar hún hvatti þingmenn til að vera orðvarir. Ég bið hana um að líta í eigin barm. Í málum tengdum þessu, eins og rammaáætlun, hafa fallið mörg stór orð og menn hafa meðal annars verið kallaðir talibanar úr ræðustóli Alþingis ásamt öðrum ósómaorðum. (Gripið fram í.) Þá hefur sami þingmaður, hv. þingmaður Samfylkingarinnar, sem situr nú ekki undir þessu heldur labbar úr salnum, hlegið úti í sal og skemmt sér yfir því. Þetta segir okkur kannski að við eigum að líta í eigin barm og passa okkur á því að vera orðvör í framtíðinni.

Uppbygging orkufreks iðnaðar er gríðarlega mikilvægt verkefni. Verkefnið á Bakka snýst um að byggja upp starfsemi úti um hinar dreifðu byggðir, starfsemi sem getur skotið stoðum undir eflingu samfélags, eflingu atvinnulífs og aukna verðmætasköpun í samfélaginu. Húsavík er sannarlega staður þar sem menn hafa lengi beðið eftir slíku tækifæri þar sem samdráttur í vinnuafli og þörf fyrir vinnuafl í sjávarútvegi er nokkuð sem Húsavík, eins og margir aðrir staðir á landsbyggðinni, hefur liðið fyrir. Þetta á að hvetja okkur enn frekar til dáða á þeim vettvangi. Við eigum að hafa þau sjónarmið ofarlega í huga þegar við hugsum um frekari uppbyggingu í atvinnulífinu og horfa til landsbyggðarinnar fremur en þéttbýlisins á suðvesturhorninu þegar að þessu kemur, ef okkur er raunverulega annt um að snúa við byggðaþróun undanfarinna ára sem ég hef fulla trú á að við getum gert.

Ég fagna þessu verkefni á Húsavík svo það sé ekki neinum efa blandið. Því fylgir auðvitað uppbygging innviða. Það er óhjákvæmilegt. Þar sem þarf að byggja upp orkufrekan iðnað þarf að byggja upp öfluga innviði. Við höfum svo sem dæmi um það víðar. Við getum tekið dæmi um það á Austfjörðum þar sem byggð hefur verið upp mikill og orkufrekur iðnaður á Reyðarfirði. Við höfum byggt upp öflugan sjávarútveg á nokkrum stöðum. Það sem er ólíkt með verkefninu á Húsavík og uppbyggingu víðast hvar annars staðar er að ríkið hefur ekki áður komið með eins stór framlög til uppbyggingar innviða og gert er þarna. Yfirleitt er þetta reiknað þannig út að verkefnin sem um ræðir standi undir uppbyggingunni. Svo er ekki í þessu tilfelli. Tekin var ákvörðun um að ríkið legði sérstaklega til bæði víkjandi lán út af hafnargerð og sérstakt framlag út af vegagerð frá hafnarsvæðinu inn á atvinnusvæðið. Það hefur síðan reynst mun dýrara en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er slæmt og það er auðvitað ekki hægt að taka undir það að í framtíðinni eigum við ekki að hafa neinar tölur á blaði varðandi slík verkefni heldur hafa bara sem opinn tékka. Þetta segir okkur miklu frekar að það er mikilvægt að við vöndum undirbúning í slíkum málum svo að við vitum nákvæmlega að hverju við göngum þannig að það komi síðan ekki reikningar upp á mjög háar upphæðir eins og í þessu tilfelli, á annan milljarð, í bakið á okkur. Það verður svo sem ekki aftur snúið, það er búið að leggja það mikið undir og við verðum að axla ábyrgð í þessu.

Þetta er nátengt þeirri umræðu sem við höfum átt hér í út af rammaáætlun. Eins og fram kom í ræðu áðan eru órjúfanleg tengsl á milli þess að ræða rammaáætlun, sem fjallar um virkjunarkosti raforkuframleiðslu, og þess að byggja upp öfluga innviði. Ég verð að segja að það er mikill tvískinnungur í þessari umræðu þegar kemur að þessu og hann er í raun alveg óþolandi. Það er alveg óþolandi að við skulum ekki geta átt málefnalega umræðu um þessa hluti og staðið með okkar skoðunum. Gengið var frá þessu stóriðjuverkefni, sem er runnið undan rótum síðustu ríkisstjórnar, í tíð síðustu ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það er gott og blessað. Þessir sömu flokkar, sérstaklega Vinstri grænir, hafa lagst mjög gegn uppbyggingu í orkufrekum iðnaði, einkum áliðnaði, og fundið honum allt til foráttu. Það er ákveðinn tvískinnungur í því að leggjast gegn uppbyggingu álvera, þó að ég sé ekki endilega að mæla með þeim eitthvað sérstaklega meira en orðið er, og vera tilbúinn að leggja samt sem áður blessa sína yfir kísilmálmver og frekari stækkanir þeirra í framtíðinni og eflingu á þeim verkefnum, að tala niður álver þegar staðreyndin er sú að kísilmálmverksmiðja mengar átta sinnum meira á hvert framleitt tonn en álver. Kísilmálmverksmiðja er langt frá því að umhverfisvæn í líkingu við álið eftir að framleiðslu lýkur. Það er einmitt notkunin á álinu í framhaldi sem ætti að gera það að verkum að þeir sem kenna sig við græna stefnu, umhverfisvæna stefnu, ættu að fagna álverum þar sem álið er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Græn umhverfisáhrif áls hafa til framtíðar algjöra yfirburði yfir alla aðra framleiðslu í orkufrekum iðnaði. 80% af áli sem hefur verið framleitt í heiminum á undanförnum 120 árum hefur verið endurunnið. Það kostar innan við 5% af orkunni við að framleiða ál að endurvinna það. Græn spor þess tengist léttleika þess og hentugleika til að nota í samgöngutæki dregur verulega úr brennslu jarðefniseldsneytis. Þannig er grænt spor þessa málms mjög mikið og ætti í raun að vera fagnaðarefni hverjum þeim sem kennir sig við græna stefnu og græna hugsun og umhverfisvernd. Þá koma sömu flokkarnir og tala þetta niður og eru alveg fyllilega sammála um að kísilmálmver sé miklu vænni kostur þó að hann mengi átta sinnum meira á hvert framleitt tonn.

Snýst þetta þá um pólitík? Snýst þetta um blekkingar? Um hvað snýst svona málflutningur, virðulegi forseti? Er þetta með vilja gert eða er þetta óupplýst umræða? (Gripið fram í.) Veit fólk ekki betur? Ég veit það ekki, ég ætla ekki að svara því en ég kalla bara eftir því að við höfum svolítið málefnalega og heildstæða umræðu þegar við tökum þetta til umfjöllunar.

Mér varð að orði þegar ég ræddi þetta fyrir stuttu úr ræðustól Alþingis að spyrja hvort staðsetning verkefnisins hefði haft eitthvað með þetta að gera. Vissulega hefur það verið staðfest í ræðum hv. þingmanna að auðvitað hefði það haft eitthvað með þetta að gera. Hafði það áhrif að þetta væri í Norðausturkjördæmi þar sem ráðherrann, fyrrverandi formaður Vinstri grænna, sem fékk málið til ábyrgðar og umfjöllunar í ríkisstjórninni, hefur aðsetur? Auðvitað er það ekkert óeðlilegt. Við erum samt sem áður fyrst og fremst að tala um kalt svæði í atvinnulegu tilliti, við erum fyrst og fremst að tala um að það sé nauðsynlegt að byggja upp á þessu svæði eins og svo mörgum öðrum í landinu.

Þá komum við að hinu sem við höfum hatrammlega tekist á um hér í þinginu, óvenju hatrammlega, þ.e. rammaáætlun. Það er samasemmerkið á milli þess að við ákveðum einhverja ásættanlega leið í vali á næstu virkjunarkostum og uppbyggingu annars staðar á landinu sem er alveg jafn nauðsynleg, uppbyggingu í Suðurkjördæmi, á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi hefur verið hvað mest á landinu, þar sem lengi er búið að bíða eftir því að nýta betur þau mannvirki og þær framkvæmdir sem hefur verið farið í, að það fari að skila einhverjum tekjum, uppi á Grundartanga sem hlýtur að teljast mjög góð staðsetning fyrir frekari orkufrekan iðnað þar sem allir innviðir eru fyrir hendi, vegagerð, hafnarmannvirki, svæði sem búið er að taka undir iðnað í stað þess að brjóta ný svæði. Þá allt í einu, virðulegur forseti, er allt annað hljóð í strokknum, þá kemur þetta ekki til greina og borið við alls konar fullyrðingum sem standast enga skoðun. Það er talað um að það sé verið að fara gegn anda laga um rammaáætlun, það sé verið að brjóta lögin. Því er ítrekað haldið fram að það sé verið að brjóta lögin þrátt fyrir að það eigi eingöngu rétt á sér sem sjónarmið gagnvart hluta af þeim virkjunarkostum sem voru undir. Það er kallað eftir því að við gerum samkomulag í þinginu um þinglok og að við náum okkur saman um þessi ágreiningsmál. Þetta hefur verið eitt af stóru ágreiningsmálunum. En í hverju á þá samkomulagið að felast? Það á að felast í því að þeir sem vilja tryggja að hér geti haldið áfram uppbygging í orkufrekum iðnaði á næstu árum og vilja heimild til að færa að minnsta kosti virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk gefi allt eftir. Þeir sem vilja stöðva það eiga hreinlega að ráða ferð. Það er engin málamiðlun til þó að það sé búið að taka út hina umdeildu kosti þar sem vissulega var hægt að beita ákveðnum rökum gagnvart túlkun laganna. Ég kom inn á það þegar ég ræddi hér um rammaáætlun á sínum tíma varðandi Hagavatnsvirkjun og mögulega Skrokkölduvirkjun, þó síður. Við höfum boðið að þessir virkjunarkostir verði teknir til hliðar. Við höfum boðið það en það dugar ekki til, það skal farið alla leið þrátt fyrir að það hafi mögulega þær afleiðingar í för með sér að eitt flottasta verkefni í orkufrekum iðnaði sem hefur komið hingað til lands verði jafnvel ekki að veruleika, verksmiðja sem framleiðir útflutningsverðmæti á við tvær til tvær og hálfa makrílvertíð á ári, 55 milljarða ár eftir ár, notar eingöngu innlent hráefni frá íslenskum álverum og íslenskum kísilmálmverksmiðjum, er mengunarlaus, algjörlega mengunarfrí og þarf ekki að fara í umhverfismat vegna þess, skapar 450 störf, fer inn á svæði sem þegar er raskað. Menn geta ekki horft í gegnum fingur sér með það þrátt fyrir að sveitarstjórnarmenn og fólk á þessu svæði kalli eftir því að þetta gangi eftir. Forustumenn verkalýðsfélaga kalla eftir þessu. Nei, það skal ekkert gefið eftir. Þetta sama á mögulega við um Helguvík, ef ekki verður fallist á neina virkjunarkosti er niðurstaðan sú að við getum ekki farið í þá uppbyggingu sem fyrir liggur í Helguvík. Það er þessi tvískinnungsháttur sem ég kann óskaplega illa við. (Gripið fram í.)

Þá segja menn hér í ræðustólnum mjög hátíðlega að náttúran eigi að njóta vafans. Þetta sama fólk er að byggja upp orkufrekan iðnað á Bakka með jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum í Mývatnssveit. Stenst þetta sjónarmið einhverja skoðun? Vatnsaflsvirkjanir hafa algjöran fyrirsjáanleika og af þeim er mjög lítið jarðrask. Það yrðu mjög lítil umhverfisleg áhrif í neðri hluta Þjórsár, einhver þau minnstu sem geta orðið af virkjunarkostum í landinu. Stenst það einhverja skoðun að bera það saman við stóriðju sem byggir á jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum í Mývatnssveit og jafnvel Bjarnarflagi, virðulegi forseti, að náttúran eigi að njóta vafans? (Gripið fram í: Nei.) Hvaða hagsmunir eru þá hér undir? Er þetta allt leikaraskapur? Snýst þetta um að setja á svið leikrit og ágreining og tala til ákveðinna hópa og eitthvað slíkt? Þetta snýst ekki um staðfestu, þetta snýst ekki um að vera samkvæmur sjálfum sér. Það er þetta sem ég kann illa við.

Ef þessi fyrirstaða hefur neikvæð áhrif á þessar áhugaverðu framkvæmdir sem fólkið á þessum svæðum bíður eftir, sem ég var að vitna til, sunnan heiða, þá sitja auðvitað þessir flokkar uppi með svarta pétur. Það er þeirra verk og engra annarra að slík verkefni geti ekki náð fram að ganga.

Virðulegi forseti. Ég er sannfærður um að ef einhver meining væri með því sem hv. varaformaður Samfylkingarinnar, Katrín Júlíusdóttir, hafði orð á hér áðan, að menn ættu að vanda það sem þeir segja í ræðustól, og ef við mundum fara að tileinka okkur það og hafa málefnalega umræðu þar sem einhver samkvæmni væri í því sem við segðum og horfðum á málið með þeim hætti þá mundi okkur farnast betur hér og þá væri virðing Alþingis ekki með þeim merkjum sem raun ber vitni.