144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að samkvæmt þeim almennu reglum sem gilda í stjórnsýslunni þá hafi ekki verið farið eftir þeim í þessu tilfelli. Hvað veldur? Ég get svo sem ekkert svarað því hvað veldur. Ég tel að það sem hangi meðal annars á þeirri spýtu sé að þetta var í kjördæmi viðkomandi ráðherra. Þá segir maður á móti: Er eitthvað óeðlilegt við það? Já, við eigum að fylgja einhverju ferli í stjórnsýslunni en það er svo sem fullt af dæmum þar sem við höfum farið óhefðbundnar leiðir.

Við getum litið í eigin barm í þinginu þegar við vísum málum til nefnda sem ágreiningur er um hvert eiga að fara, samanber rammaáætlun sem var vísað til atvinnuveganefndar í vetur og margir voru ósáttir við þar sem málið heyrir undir hæstv. umhverfisráðherra. Að sama skapi var það þannig á síðasta kjörtímabili að þáverandi ríkisstjórn kaus að vísa málinu til hv. umhverfisnefndar þó að málaflokkurinn væri enn á þeim tíma á vettvangi atvinnuvegaráðuneytisins. Svona er þetta. Við vorum þó að gera þetta vegna þess að það er skýr skoðun okkar í núverandi stjórnarflokkum að þessi málaflokkur eigi heima í atvinnuvegaráðuneytinu og þess vegna var því máli vísað til atvinnuveganefndar. Það er auðvitað nokkuð sem á eftir að breyta á ríkisstjórnarheimilinu, þ.e. að færa þetta yfir aftur, vegna þess að við teljum ekki að það eigi heima hjá umhverfisráðuneytinu. Við teljum að þetta eigi heima í atvinnuvegaráðuneytinu þar sem það hefur alltaf verið. Það er skoðun okkar og við héldum henni fram. Þess vegna var þetta gert með þessum hætti.

Við höfum fullt af dæmum um slíkt. Það má samt sem áður leiða líkur að því að ef þetta mál hefði verið vistað í öðru ráðuneyti þá hefði þekkingin á því verkefni sem hér er að koma stór reikningur út af ekki litið dagsins ljós heldur hefði verið til meiri þekking til að gera nákvæmari útreikninga og úttektir á því hver kostnaðurinn mundi í raun verða.